Hvernig kosning forseta verður því traustari sem fleiri eru í framboði

Þegar þetta er ritað í febrúar 2016 í aðdraganda forsetakjörs, er óvissa um frambjóðendur. Sumum líst ekki á, ef frambjóðendur verða segjum 10, að maður skuli geta náð kjöri með 11% atkvæða á bak við sig. Í þeirri stöðu gæti verið svo, að 89% kjósenda vildu hann með engu móti, en það kemur ekki fram af kjörseðlunum. Þó að slík ósköp verði ekki, er á það að líta, að aðeins einn forseti hefur hér verið kosinn í fyrsta sinn með meirihluta atkvæða, en það var Kristján Eldjárn 1968. Vigdís Finnbogadóttir var kosinn forseti með þriðjungi atkvæða 1980. Þegar Ólafur Ragnar Grímsson var kosinn forseti í fyrsta sinn, fékk hann rúm 40% atkvæða. Það segir ekki, að þeir, sem kusu hann, hafi verið traustir stuðningsmenn hans upp frá því. Fyrirkomulag forsetakjörs hér tryggir ekki, að forseti njóti trausts stuðnings hvorki í upphafi né þegar frá líður.

            Menn nefna það ráð til að fá forseta, sem nýtur sterks stuðnings, að kjósa í tveimur umferðum, þannig að í seinni umferð verði kosið um þá tvo, sem fengu í fyrri umferð flest atkvæði. Þannig hefur verið farið að við rektorskjör í Háskóla Íslands. Tölur úr rektorskjöri 1997 sýna, þegar fjórir bjóða sig fram, að önnur umferð getur verið milli þeirra, sem flestir vildu síst (sjá rit mitt Lýðræði með raðvali og sjóðvali, grein II.A.3). Þessi aðferð er höfð við kosningu forseta í Frakklandi. Kosning þar 2002 var í seinni umferð milli Jacques Chirac, sem fékk rúm 80% atkvæða, en tæp 20% í fyrri umferð. Jean-Marie Le Pen komst í aðra umferð með tæp 17% atkvæða; það var örlítið forskot á þriðja mann. Í seinni umferð fékk Le Pen tæplega 18% atkvæða. Það kom því í ljós, að þeir, sem kusu aðra en þá tvo í fyrri umferð—þeir voru 13, kusu svo til allir Chirac.  Þeir voru því ekki eiginlegir stuðningsmenn hans, heldur kusu hann til að forðast það, sem þeim þótti verra. Kosning í tveimur umferðum þarf því ekki að leiða í ljós almenna hylli kjósenda við þann, sem nær kjöri.

 

Forseti raðvalinn

Lítum á, hvort við raðval fari í slíkt óefni, sem hér er lýst. Til að einfalda málið setjum við, að kjósendur séu 100. Segjum, að í raðvali setji 11 kjósendur eitt 10 forsetaefna efst, en önnur séu sjaldnar efst. Í raðvali eiga menn ekki aðeins kost á að tjá, hvað þeir vilja helst, heldur líka, hvað þeir vilja síst og allt þar á milli. Setjum, að 89 vilji ofannefnt forsetaefni síst. Það er tjáð með því að setja það neðst í röðinni. Þetta kemur þannig út, að forsetaefni, sem er efst í röð 10 efna, fær 9 stig; það fær eitt stig fyrir hvert skipti, sem það er ofar en annað í röðinni. Forsetaefni, sem er fyrir neðan öll önnur í röðinni, fær þar ekkert stig. Forsetaefnið A, sem 11 setja efst, fær þá 9x11=99 stig. Hver seðill gefur 9+8+7+6+5+4+3+2+1=45 stig. Af 100 seðlum koma alls 4500 stig. Af þeim hefur A 99 stig. Hinir 9 fá þá samtals 4401 stig. Það er að meðaltali 489 stig, nánast fimmfalt það, sem sá, sem flestir settu efstan, fær. Sigurvegarinn í hefðbundnu kjöri fengi því hraklega útreið í raðvali.

            Uppgjör einstakrar raðar er af sama tagi og gerist á skákmóti, þar sem allir tefla við alla. Maður, sem vinnur á skákmóti, hefur skýrari yfirburði, eftir því sem fleiri tefla. Afstaða kjósenda til þess, sem er raðvalinn, verður á sama hátt því skýrari sem forsetaefni eru fleiri.

Birttist í 

Færðu menn snimma niður korn sín.

Rit til heiðurs Jónatan Hermannssyni sjötugum 27. nóvember 2016.


Þjóðablöndun í Noregi

Af tali manna að ráða er almennur skilningur á áhrifum innflytjenda á hag landsmanna. Innflytjendur þrengja helst að þeim, sem standa veikt, svo sem fyrri innflytjendum, en aðrir hafa ávinninginn af innflytjendunum. Vandinn er sá að ofbjóða ekki, svo að sú tilfinning vakni, með réttu eða röngu, að þrengt sé að ýmsum, sem hér hafa alið aldur sinn og hafa átt í vök að verjast. Þannig verða leiðindi, sem meðal annars birtast sem hatursorðræðu. Vitaskuld er hatursorðræða landsmanna um eigin landsmenn miklu rammari en hatursorðræða þeirra um útlendinga og hefur lengi verið.

             Innflytjendahópar hér hafa lengi lifað sínu eigin lífi og samlagast, eins og margir þekkja af eigin raun. Það er mikið spurning um, hvernig fer, hvort straumurinn er stríður til landsins. Ég hef löng kynni af Noregi, þar sem ég var ungur árum saman og kem enn iðulega þangað, helst vegna starfs. Í Osló blasir við nærri járnbrautarstöðinni líf, sem á rætur í fjarlægum löndum. Fyrir nokkrum árum var sagt frá því í blöðum, að þar, í hverfinu Grönland, hefði síðasta norska fjölskyldan með barn í skóla flust burt. Stundum leysist alþýðlegt samfélag upp, þegar efnamenn kaupa þar eignir og setjast að. Í Grönland sótti fátækt fólk, eins og innflytjendur voru yfirleitt, inn í gróið hverfi alþýðufólks, og aðlagaðist ekki, heldur varð smám saman einrátt.

            Nýleg athugun sýndi, að innflytjendur í Osló skera sig ekki úr á mestu þjóðræknishátíð í Noregi, þjóðhátíðardeginum 17. maí. Þar er þjóðfáninn með merki kristninnar, krossinum, mest áberandi. Þetta þótti benda til aðlögunar. Annað kom fram í athugun, sem nýlega var gerð í Grorud í Osló. Þar er mikil nýbyggð, sem hófst upp úr miðri síðustu öld, og var allt af myndarskap gert, eins og blasti við á ferð um hverfið. Ég ber Grorud saman við Grafarvogshverfið í Reykjavík, þar sem ekki aðeins er myndarbragur, heldur má líka skynja þar gott mannlíf með öflugu félags- og menningarstarfi. Það er ekki sjálfgert, að vel takist við slíka nýbyggð á tímum, þegar hversdaglegt líf er sundrað.

            Grorud-hverfið var athugað með tilliti til innflytjenda. Spurningin vill vera, hvernig samlögunin tekst. Samlögunin reyndist ekki aðeins hafa mistekist, heldur höfðu norðmenn á Grorud hætt að taka þátt í því samfélagi, sem þeir höfðu mótað, og dregið sig hver inn í sína skel, sína íbúð.

            Maðurinn, sem rannsakaði, valdi fólk til viðtals. Hann sniðgekk þá, sem voru í stöðu til að vinna að málum íbúanna og höfðu þess vegna opinbera afstöðu. Ég minnist sögu úr skýrslu hans. Norsk kona sagði, að svo væri komið, ef hún gengi eftir götu þar í hverfinu, vitaskuld klædd alla vega, eins og gerist meðal norskra kvenna, þá horfðu ‘þeir’ á hana grimmdaraugum. Söguna hafði hann til að lýsa sundrung almennt meðal íbúanna. Samtölin fóru fram með nafnleynd, aðeins þannig fékkst fólk til að tjá sig, sagði rannsakandinn.

Björn S. Stefánsson

Birtist áður í Morgunblaðinu 27. desember 2016

 


Þegar dró að ísöld

Virkni sólar hefur sveiflast verulega undanfarnar árþúsundir. Síðast var sólin verulega dauf fyrir fjórum öldum. Af því leiddi litla ísöld í Evrópu 1645-1715, en hún dró á eftir sér kulda í ein 150 ár. Hér norður við heimskautsbaug mundu tímamörkin hafa verið önnur. Þekkt er mynd, sem endurspeglar litlu ísöld, af ísi lagðri Lundúnaánni Thames frá síðari hluta 17. aldar. Menn hafa spurt sig, hvers vegna stefndi þá um síðir í aðra átt, til hlýnunar, en ekki til eiginlegrar ísaldar, eins og ef til vill var stutt í. Þess hefur verið getið til, að þegar á 18. öld hafi gætt hlýnunar loftslags vegna kolabruna og það ráðið viðsnúningnum.

            Nú segja sólfræðingar, að sveiflan í sólvirkninni sé niður á við og að geislar sólar hafi dvínað undanfarin ár. Þeir kunna ekki að svara því, hvort geti farið í sama far og á 17. öld, telja kólnunina geta orðið allt að því eins mikla, en minnst verði kólnun, sem svarar til þeirrar hlýnunar, sem maðurinn kann að hafa valdið með umsvifum sínum undanfarnar tvær aldir. Samkvæmt þessu gætu umsvif mannsins haldið aftur af kólnun loftslags.

            Þetta er þvert á það, sem Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) ályktuðu um í París í desember 2015 og gerðu loftslagssamning um. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ, sagði um daginn í Hörpu, þegar norðurskautsmál voru þar til umræðu, að allar raddir, sem héldu öðru fram en ályktað hefði verið í París, hefðu þagnað. Þá heyrir hann ekki vel.

            Menn athugi, að loftslagssamningurinn í París skuldbindur þjóðir heims um tvennt, en aðeins tvennt, að koma saman árlega og ræða málið og að kynna hver fyrir sig eigin fyrirætlun um aðgerðir í þágu þess, að loftslag hlýni ekki af mannavöldum, heldur dragi úr hlýnun, og endurnýja fyrirætlanir sínar á nokkurra ára fresti. Ríkin eru hins vegar ekki skuldbundin til að standa við fyrirætlanir sínar. Kínverjar, sem taka í notkun 2000 kolanámur á þessu ári og hafa staðfest samninginn, mega samningsins vegna taka í notkun 2000 námur á næsta ári og 2000 á þarnæsta ári o.s.frv. Indverjar eru stórtækari í þessu en kínverjar. Það eru engin samningssvik, þó að þessi ríki haldi þannig sínu striki. Loftslagssamningurinn er þannig máttlaus gagnvart milljarðaríkjunum. Samningurinn þarf heldur ekki að tefja það, að heimurinn snúi við blaðinu, ef geislar sólar haldast áfram í daufara lagi og dofna meira.

 

Björn S. Stefánsson

Birtist áður í Morgunblaðinu 2. nóvember 2016: 20


Brusselmaður á Bessastaði

Ýmsir telja, að staða Íslands gagnvart Evrópusambandinu sé ekki háð atbeina forseta Íslands. Hvað sem því líður hafa stuðningsmenn aðildar að sambandinu beitt sér í forsetakosningum. Árið 2012 stóð til, að Jón Hannibalsson yrði í framboði, en af því varð ekki. Þá bauð sig fram bróðurdóttir hans, Þóra Arnórsdóttir, þekkt úr Sjónvarpinu. Í aðdraganda kosninganna nú fréttist af ýmsum konum, aðildarsinnum, sem kynnu að bjóða sig fram. Guðni Th. kom fram, þegar þær höfðu hætt við. Þjóðin hafði þá undanfarið kynnst honum í hlutverki álitsgjafa Sjónvarps og Útvarps. Nú  hafa verið dregin fram ýmis atriði, sem sýna, að í Guðna eiga aðildarsinnar mann, sem hefur sýn á stöðu Íslands og sögu, sem fellur að sýn þeirra. Kynning Sjónvarpsins á Guðna, áður en framboð hans var  tilkynnt, var vitaskuld mikilvægt upphaf framboðs. Föstudagskvöldið 3. júní unnu umræðustjórar Sjónvarpsins greinilega í þágu hans.

            Sjónvarpið kom forsætisráðherra frá. Nú reynir á, hvort það kemur sínum manni á Bessastaði.

Björn S. Stefánsson

Birtist áður í Morgunblaðinu 8. júní 2016 20


Tungumál og tækni

Nú sækja óvitar leik, yndi og hrylling í síma sína og önnur tæki. Þar er svo til allt mál enskt. Til eru ráð til að hljóðsetja efnið og gera það að því leyti íslenskt. Það kostar. Það stendur upp á unga ráðamenn þjóðarinnar að kosta verkið.
Ég rifja upp tvö tilfelli, þegar ný tækni kom og íslenskir ráðamenn snöruðu sér í að beita henni í þágu íslensks máls. Skömmu áður en siðaskipti urðu hér um slóðir á 16. öld, var farið að prenta ritað mál með ráðum Gutenbergs. Með siðaskiptunum átti almenningur að geta lesið biblíuna, en áður var hún á máli kirkjunnar manna. Nýja testamentið varð svo til strax til á íslensku og ekki löngu síðar biblían öll. Að þessu stóðu ungir menn. Eins og þá var, varð þannig svo til allt lesefni þjóðarinnar á íslensku, enda höfðu lög landsins ávallt verið á íslensku.
Um miðja 20. öld breiddist sjónvarp út um löndin. Í bandarísku herstöðinni á Miðnesheiði var sjónvarpsstöð, en engin hreyfing var til að hefja íslenskt sjónvarp. Þá gerðist það, að sjónvarp herstöðvarinnar fór að sjást utan hennar og þar með í höfuðborginni. Efnið var vitaskuld á ensku. Æ fleiri heimili í Reykjavík höfðu sjónvarpstæki. Við þessu var brugðist 1964. Valið lið 60 manna varaði við þessu, þar sem farið væri inn í íslenska menningarhelgi með þessu sjónvarpi hersins. Menntamálaráðherra tók það upp í ríkisstjórninni að hefja íslenskt sjónvarp. Fyrst tók aðeins einn ráðherra undir við hann, en svo fór fljótlega, að efnt var í íslenskt sjónvarp.
Þetta er vel kunnugt. Hitt er ekki kunnugt, hvernig þetta bar að. Það var þannig, að Vilhjálmur Þ. Gíslason útvarpsstjóri sneri sér til bandaríska herstjórans hér og lagði að honum að færa sendingar sjónvarps hersins út til íslenskra byggða. Fyrir Vilhjálmi vakti að knýja ráðamenn til að hefja íslenskt sjónvarp, áður en hann léti af störfum vegna aldurs 1967. Eiginlega var herstjóranum ekki heimilt að senda út fyrir herstöðina. Það var almennt um bandarískar herstöðvar utanlands, ekki af virðingu fyrir menningarhelgi, heldur vegna þess að með því að senda út fyrir herstöð vofðu yfir útgjöld á herinn fyrir hönd höfunda sjónvarpsefnisins. Herstjórinn setti sig því í hættu frá yfirboðurum sínum í Bandaríkjunum að láta að óskum um að færa sendingar út fyrir herstöðina. Vilhjálmur ávarpaði þjóðina í íslensku sjónvarpi, þegar það tók til starfa 30. september 1966.
Úr því sem komið er verður þessi frásögn varla sannreynd að fullu. Ragnar Stefánsson, áður ofursti í Bandaríkjaher hér á landi, sagði Stefáni Þorlákssyni frá. Þegar Stefán varð kennari við menntaskólann á Akureyri 1970, kenndi Ragnar þar og allt til 1977. Stefán sagði mér. Allmörgum árum síðar spurði ég hann um málið. Saga hans var þá óbreytt. Svo var yfirleitt um frásögur hans, að þær högguðust varla.
Smám saman varð til í Sjónvarpinu barnaefni á íslensku. Forráðamenn stýrðu efninu. Nú stýra smábörn myndefni sínu. Spurt er, hversu lengi má bíða með að koma upp forriti, sem íslenskar tal á myndefni, áður en svo verður komið, að börnum þyki óeðlilegt að hafa það ekki á ensku.

Björn S. Stefánsson

Birtist áður í Morgunblaðinu 22. desember 2015.


Norðurlandamál

Kunningi minn sveif á mig á dögunum á förnum vegi og var í uppnámi. Hann hafði farið á viðburð hér í Reykjavík, þar sem kynnt var útgáfa á Flateyjarbók á norsku, mikið verk og dýrt. Allt fór fram á ensku, þar á meðal ávarp norska sendiherrans. Hann kvaðst hafa spurt sendiherrann, hvað það ætti að þýða, að hún skyldi ekki tala norsku. Heldurðu, að ég hefði fengið leyfi til þess, svaraði hún, nýkomin til starfa hér.

 

Kunninginn var leiðsögumaður nokkurra norðmanna og hafði séð þarna tækifæri til að koma til móts við þá og fannst skömm að, þegar til kom. Mér þykir ekki líklegt, að nokkur hafi sótt þennan viðburð, sem ekki skildi norsku. Viðbúnaður á slíkum samkomum gæti verið að gefa kost á samhliða túlkun með tækjum, heldur en ryðja út öðrum málum en ensku.

Á Melunum rís nú hús yfir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Hugsjónin er þar að virða þjóðtungurnar. Í Háskóla Íslands fer fram kennsla í þýðingarfræðum. Ég heyrði erindi forstöðumannsins um daginn, þar sem kom fram, að honum var ofarlega í huga að efla íslenskt mál gegn ofurvaldi heimsmálsins. Saga leiðsögumannsins er hvorki uppörvandi fyrir slíkt starf né hugsjón Vigdísar Finnbogadóttur.

Björn S. Stefánsson

Birtist áður í Morgunblaðinu 26. nóvember 2015 71

 


Þorskveiðar: helmingur eðlilegs afla

Það hefur lengi verið ætlun ráðamanna, að þorskafli landsmanna tvöfaldaðist. Þá yrði hann eins mikill og samanlagður afli íslendinga og útlendinga var við Ísland, áður en fiskveiðilandhelgin var færð út svo um munaði. Þrátt fyrir þessa ætlun hefur aflinn hjakkað í sama farinu. Afli landsmanna sjálfra er eins og hann var, en ekkert hefur bæst við hann við hvarf erlendra skipa af miðunum. Eins og staðið hefur verið að fiskveiðistjórn, er það eðlilegt, þar sem það ráð hefur verið hunsað, sem fiskihagfræðingurinn Rögnvaldur Hannesson setti fram fyrst ráða, sbr. grein um hagfræðiráð við fiskveiðar í Morgunblaðinu 22. ágúst. Ráð Rögnvalds er ekki sérmál hans; sama sjónarhorn er haft við kennslu í Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna hér í Reykjavík, svo að dæmi sé nefnt. Þetta er heimfærð líffræði og lætur fjölda nytjadýra og nytjajurta standast á við þá næringu, sem kostur er á.
Gömul reynsla og ný er það, hvernig dýr og gróður fer í óhirðu, þegar dýrin og jurtirnar eru fleiri en svarar til þeirrar næringar, sem þarf til eðlilegs þroska. Það blasir víða við hér á landi, að trjáreitir og skógar eru í óhirðu, vegna þess að trén eru of mörg.Við horfóðrun voru fleiri dýr sett á en fóður var fyrir, ef tíð varð hörð vetur og vor. Það er einfalt mál að tvöfalda vöxt vanhirtra skóga með grisjun eða afurðir vanfóðraðs búfjár með því að fækka á fóðrum. Öfugt við þetta er að fjölga einstaklingunum umfram næringu, sem býðst. Iðulega er tilkynnt í Útvarpinu bann við veiði á grunnslóð um lengri eða skemmri tíma; slík vinnubrögð geta haft sömu áhrif á fiskstofninn og að setja niður helmingi fleiri útsæðiskartöflur en menn hafa reynslu fyrir, að skilar bestum árangri, uppskeran yrði mest smælki.
Heildaraflamark stjórnvalda á þorski verður ekki reist á gildum rökum, fyrr en honum hafa verið búin lífsskilyrði með áðurnefndu ráði fiskihagfræðingsins um grisjun. Ekki eru heldur líffræðileg rök fyrir því, að stór hrygningarstofn þorsks tryggi betur viðgang þorsksins en lítill. Enda þótt til séu líffræðileg ráð til að tvöfalda þorskstofn og þorskafla, er eins víst, að ráðamenn séu í sjálfheldu og ekki muni takast að breyta stjórn fiskveiða, svo að þorskaflinn nái þeirri stærð, sem hann hafði, þegar landsmenn og útlendingar veiddu án opinberra takmarkana. Þetta er af því, að heildaraflamarkið, skipting þess í aflaheimildir útgerða ásamt framsalsrétti þeirra skapar útgerðinni öryggi við afla og vinnslu og er lykillinn að öflugri útgerð einstakra fyrirtækja. Um leið er aflamarkið viðmið þeirra, sem vilja sækja meira fé til sjávarútvegsins til handa hinu opinbera, og heitir ýmsum nöfnum, svo sem auðlegðarskattur og uppboð á aflaheimildum. Þar sem aflamarkið er öryggis- og afkomuráð sjávarútvegsins, snýst atvinnugreinin til varnar því fyrirkomulagi. Þá mundu þeir, sem ætla sjávarútveginum að skila ríkinu meira fé og með með tilliti til aflamarksins, í andstöðu við útgerðina, missa verkfæri í þágu stefnu sinnar, ef það hyrfi. Þannig standa andstæðingar saman um að varðveita aflamarkið sem þjóðráð.
Þrátt fyrir það að ákvörðun á heildaraflamarki verði ekki studd líffræðilegum rökum og öll viðmiðun við það kunni að halda nýtingu fiskislóðanna í helmingi þess, sem náttúran gæti gefið, er aflamarkið viðmið, sem stjórnmálin hverfast um, en með öðrum ráðum til fiskveiðistjórnar yrði núverandi vígstaða stjórnmála- og hagsmunaafla um hana marklaus, að því ógleymdu, að með aflamarkinu sjá þeir, sem stefna Íslandi í Evrópusambandið, tækifæri til að liðka til við upptöku landsins í það, sbr. greinina „Hugmyndir að baki stjórn ríkisins á fiskveiðum“ í Morgunblaðinu 30. júlí.
Með leikreglum sjóðvals má á ábyrgan hátt gera út um hvaðeina, sem lýtur að fiskveiðistjórn, svo sem fiskihagfræðileg ráð til varanlegrar nýtingar fiskstofna og með tilliti til öryggis við veiðar og vinnslu og um tekjuöflun ríkisins af auðlindum. Lýðræðissetrið gerði tilraun til umfjöllunar um afmarkaðan hluta fiskveiðistjórnar með sjóðvali meðal þingmanna og varaþingmanna. Þátttaka varð lítil. Pétur heitinn Blöndal, alþingismaður og stærðfræðingur, sem var þekktur fyrir að taka sjálfstæða afstöðu, viðurkenndi aðferðina, en kvaðst ekki geta tekið þátt í þessu sjóðvali, sem bauð upp á ýmis afbrigði að taka afstöðu til, þar eð þingflokkurinn hefði ákveðið að hafa samhljóða afstöðu. Þingflokkur hans skar sig ekki úr í því.

Björn S. Stefánsson

(Birtist áður í Morgunblaðinu 3. september 2015)


Fiskveiðistjórn með hagfræðiráðum

Athugum hlut hagfræðinnar í fiskveiðistjórn við Ísland eftir að fiskimiðin við landið komust að mestu á forræði ríkisins fyrir fjórum áratugum. Ég benti á það í grein um hugmyndir að baki fiskveiðistjórn í Morgunblaðinu 30. júlí, að helstu efnahagsráðgjafar landsins áttu með sér vandaðar hugmyndir um það, hvernig þar skyldi taka á. Vísað var til hagfræðilegs ráðs til að sjá til þess, að nýting almennings, eins og fiskimiðin eru, verði í hófi. Því ráði var svo aldrei beitt hér.

Næsta merkilega hagfræðilega ábendingin í þessum málum er í eftirfarandi orðum Rögnvalds Hannessonar frá árinu 1994, en hann var þá og til skamms tíma prófessor í fiskihagfræði við Verslunarháskóla Noregs: „Veiðum úr fiskistofnum, sem halda sig á afmörkuðu svæði, þar sem ekki eru of miklar umhverfissveiflur, er hægt að stjórna út frá langtímasjónarmiðum. Allur varanlegur afli byggist á því að grisja fiskistofna hæfilega, m.a. út frá fæðuframboði og afráni eldri fiska á ungviði. Þessi lýsing held ég eigi sæmilega við þorskinn á Íslandsmiðum.“

Ábending Rögnvalds er úr grein í Morgunblaðinu (6. júní). Um páskaleytið árið eftir var Rögnvaldur á málstofu í hagfræði- og viðskiptadeild Háskóla Íslands. Þar reifaði hann, hvernig mætti stjórna fiskveiðum í hafi, sem mörg ríki sækja til veiða í, og hafði hann Barentshaf sem dæmi. Það gerði hann stærðfræðilega og fimlega. Eins og vill verða með stærðfræðilega fimleika í hagfræði, kom ekkert raunhæft út úr. Getur verið því um að kenna, að óhjákvæmilegar forsendur eru margar. Á þessari málstofu voru m.a. nokkrir aðkomumenn auk hagfræðinga, sem höfðu sinnt fiskveiðistjórn fræðilega, í deildinni og á Þjóðhagsstofnun. Að lokinni framsögu hófust umræður um forsendur fiskveiðistjórnar. Í þeim tóku þátt aðkomumennirnir auk Rögnvalds og töluðu mannamál. Staðfestist þar vissulega framangreint álit Rögnvalds. Hagfræðingar deildarinnar og Þjóðhagsstofnunar sátu hjá.

Sá, sem vill kynna sér kjarna hagkvæmrar fiskveiðistjórnar, skyldi lesa grein Rögnvalds frá 1994. Hún var svar við opnu bréfi frá mér. Engin ákvörðun um fiskveiðistjórn hér við land hefur verið studd rökum, eins og hann setti þar fram.

Björn S. Stefánsson

(Birtist áður í Morgunblaðinu 22. ágúst 2015)

 


Hugmyndir að baki stjórn ríkisins á fiskveiðum

Árið 1962 hélt félagið Frjáls menning ráðstefnu í tilefni af ráðagerðum um, að ríki Fríverslunarbandalagsins bættust í Efnahagsbandalag Evrópu. Spurningin var, hvað þá yrði um Ísland, sem í hvorugu bandalaginu var.
Eftirfarandi orð Bjarna Braga Jónssonar á ráðstefnunni eru upphafsorð umræðu um auðlindaskatt á Íslandi:
„Efnahagsbandalagið á að geta skilið, að við eigum þessar auðlindir í þjóðarsameign og þurfum að halda því áfram, og við þurfum með einhverjum hætti að geta takmarkað ásóknina og skattlagt hæfilega þessa uppsprettu. Við höfum gert það með tollapólitíkinni í raun og veru. Þess vegna vil ég halda því fram, að ef við göngum í slíkt bandalag, sem ég tel að muni þá vera með aukaaðild, þá muni vera raunhæft að hækka nokkuð verðið á erlendum gjaldeyri til mótvægis við lækkun tollanna, en taka tilsvarandi hluta af gjaldeyriskaupum frá sjávarútvegi og fiskvinnslu og líta á þann skatt sem auðlindaskatt til þjóðarinnar.“ — Að hækka verð á erlendum gjaldeyri er oftast nefnt gengislækkun.
Í Fjármálatíðindum 1975 útfærði Bjarni málið með greininni Auðlindaskattur, iðnþróun og efnahagsleg framtíð Íslands. Þar kemur fram, að helstu ráðamenn efnahagsstjórnar landsins eru á sama máli og hann. Það var einmitt árið 1975, að íslendingar voru að því komnir að eignast forræði yfir svo til öllum fiskimiðum við landið. Því var eitt atriði í máli Bjarna orðið brýnt úrlausnarefni, það að hafa stjórn á nýtingu fiskimiðanna. Um það efni vísar hann til fræðigreina, sem urðu stofn umræðu um hagfræðilega fiskveiðistjórn; þær eru eftir bretana Gordon (1954) og Scott (1955). Reyndar vísa bretarnir á sóknarstjórn til hagkvæmrar nýtingar sameiginlegrar auðlindar, en í umræðu hér og annars staðar er vísað á aflastjórn, og þykjast menn engu að síður styðja mál sitt með uppstillingu bretanna.
Annað atriði í máli Bjarna var, að það væri réttlátt, að eigandi hinnar sameiginlegu auðlindar, eins og hann kvað þjóðina vera, tæki með valdi (ríkisins) gjald af þeim, sem hagnýttu sér hana. Þar hefur verið föst sú hugsun, að fiskstofnarnir séu auðlind. Svo er ekki, það er lífríkið, sem ber uppi nytjafiskana, sem er auðlind, á sama hátt og skóglendi er auðlind, en ekki skógarviðurinn.
Þriðja atriðið er það, sem felst í orðunum iðnþróun og efnahagsleg framtíð í greinarheiti Bjarna, að sjá til þess, að ríkidæmi sjávarins, sem væri takmarkað, spillti ekki fyrir starfsemi, sem getur vaxið. Það vildi hann gera með því, að ríkið taki hluta af gjaldeyrinum, sem sjávarútvegurinn aflar, og kallar það auðlindaskatt.
Á ráðstefnunni 1962 kom fram, annars vegar, að leitað yrði eftir því við aðild Íslands að Efnahagsbandalaginu, að Ísland héldi forræði fiskimiða—landhelgin var þá 12 mílur, og hins vegar, að öll fyrirtæki bandalagsins hefðu sama rétt til fiskveiða við Ísland, en íslenska ríkið seldi réttinn þeim, sem best byðu; þannig héldu íslendingar arðinum af auðlindinni. Rétturinn, sem þá hefur alltaf verið átt við, er réttur til afla.
Upp úr 1980 bar á því, að þess væri krafist, að fest yrði í lög, að fiskveiðiauðlindin væri sameign þjóðarinnar, og mælt með því, að ríkið seldi aflaheimildir, gjarna af sömu mönnum. Að þessu stóðu þeir, sem leynt og ljóst ætluðu Íslandi stöðu í Efnahagsbandalaginu, því hlaut maður að taka eftir á þessum árum.
Í þessu ljósi verður skilið, hvernig framsal fiskveiðiheimilda komst á í áföngum. Þar er hlutur Halldórs Ásgrímssonar í ráðherrastöðu mestur. Síðan árið 1972 átti Halldór sér þá hugsjón, að Ísland gengi í Efnahagsbandalagið. Hann varð þingmaður Framsóknarflokksins 1974, án þess að flokksmenn hefðu hugmynd um þessa afstöðu hans, og fyrr en varði var hann orðinn varaformaður flokksins og síðar formaður. Hann var þingmaður 1974-78 og 1979-2006 og ráðherra 1983–1991 og 1995-2006, sjávarútvegsráðherra 1983-1991. Það var fyrst í viðtali í Morgunblaðinu 18. ágúst 2006, að mönnum varð kunnugt um þessa staðföstu hugsjón hans, rétt eftir að hann hafði sagt öllu af sér. Það kemur fram í grein Svans Kristjánssonar Lýðræðisbrestir íslenska lýðveldisins. Frjálst framsal fiskveiðiheimilda í Skírni haustið 2013, hvílíkt kapp Halldórs var einmitt í því máli, framsali fiskveiðiheimilda.
Þannig verður einnig skilið, hvers vegna þeir, sem vilja hafa Ísland í Evrópusambandinu, brugðust illa við í ár, þegar lagt var til að miða auðlindagjald á sjávarútveg við afkomu fyrirtækja, en ekki aflamagn. Með því móti verður nefnilega ekki sameiginlegur grunnur til að miða við öll fyrirtæki Evrópusambandsins, eins og gæti orðið með sölu á aflarétti þeim til handa.
Enn má skilja í þessu ljósi það kapp, sem þeir, sem hafa ætlað Íslandi stöðu í Evrópusambandinu, hafa sýnt við að fá sett í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á fiskimiðunum. Slíkt ákvæði yrði efni í málatilbúnað við upptöku Íslands í Evrópusambandið, þar sem menn mættu ætla sér að halda því fram, að með því að viðhafa sölu á aflaheimildum á Íslandsmiðum væru öll fyrirtæki sambandsins við sama borð, íslensk fyrirtæki jafnt og fyrirtæki annarra ríkja sambandsins.

Björn S. Stefánsson

(Birtist áður í Morgunblaðinu 30. júlí 2015)


Gestur Eggertsson (eftirmæli)

Gestur Eggertsson f. á Akureyri 30. maí 1939. Foreldrar Katrín Eiríksdóttir frá Sjónarhól í Hafnarfirði og Eggert Kristjánsson f. í Ytra-Krossanesi við Eyjafjörð. Fyrrverandi eiginkona Guðrún H. Arndal fædd 15. janúar 1943 (skilnaður 1990/1991). Gestur og Guðrún bjuggu í Hafnarfirði og eignuðust:  1) Eggert f. 16. apríl 1964, sonur Heimir Gestur, 2) Guðlaugu f. 14. ágúst 1967, börn Emil Arnar, Jón Aron og Guðrún Marín og 3) Katrínu f. 26. apríl 1973, maki Helgi Þór Helgason, börn Eva Marín og Elmar Darri. Gestur lærði búfræði og húsasmíði. Bjó á Steinsstöðum í Öxnadal frá 1993. Hann lést 6. apríl 2015 og var jarðaður á Bakka 29. apríl.

 

Eftirmæli

Maður kemur inn í fjósið á Steinsstöðum, leiðir stúlkubarn og fer með upp úr sér nokkur ljóð eftir Jónas Hallgrímsson, réttir fram höndina og segir: Hrafn Gunnlaugsson. Bóndi réttir fram hönd og segir: Gestur Eggertsson. Komumaður: Það var hér sem Jónas Hallgrímsson ólst upp, en ekki á Hrauni. Ég veit það, segir Gestur. Hrafn: Það þarf að gera pening úr því. Gestur: Ég á nógan pening. Svo fara þeir út á hlað, þar sem sér til Hraundranga, og aftur þylur Hrafn Jónas. Gestur við Hrafn: Ég sit stundum á kvöldin í stofunni og horfi þangað. Ég þarf ekki aðra með mér við það. Ég get gert það einn.—Gestur bætti við, þegar hann sagði mér frá þessu: Þó það komi ekki nema einn bílfarmur af ferðamönnum á sumri, er þetta ekki lengur sveitabær. Enda þótt Gestur hafi líklega kunnað eyfirsku höfuðskáldin utanað, fléttaði hann ljóð ekki í tal sitt, en gat leikið sér að orðum í spjalli eins og í skáldskap.

Gestur var barnfæddur við Eyjafjörð. Faðir hans var skipstjóri fyrir norðan. Síðar fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur. Hann lærði búfræði á Hólum og svo húsasmíði og stundaði það, átti þá heima í Hafnarfirði. Hann vildi búa í sveit, en konan ekki. Eftir skilnað 1990/91 leitaði hann fyrir sér um jarðnæði í átthögunum nyrðra og keypti Steinsstaði í Öxnadal. Móðir hans fýsti hann að láta verða af því, eins og hugur hans hafði lengi staðið til, studdi hann við kaupin, fluttist með honum norður og var hjá honum. Katrín Gestsdóttir vandist hestum í Hafnarfirði með föður sínum, þau tömdu hesta á Steinsstöðum, og hún giftist Helga á Bakka. Gestur mat Helga manna mest.

Tveimur mánuðum eftir lát Katrínar Eiríksdóttur 1996 kom Sigríður systir Gests, búsett í Reykjavík, norður vegna dánarbúsins. Nú er aðeins einn til frásagnar. Þegar Sigríður var búin til brottfarar við bíl sinn, leiddi ágreiningur með þeim systkinum um muni dánarbúsins til handalögmála. Þar dó hún. Gestur var dæmdur í átta ára fangavist. Krufningsskýrsla gat bent til þess, að hún hefði dáið af geðshræringu.

Gestur fór á Litla-Hraun haustið 1997 og hafði bústjóra á Steinsstöðum. Á Litla-Hrauni endurgerði hann elstu bygginguna. Þá vantaði verkefni. Honum líkaði það ekki, þótti lítið tak í samföngum og vildi fara á Kvíabryggju. Að vísu á maður með þungan dóm ekki að vera þar. Gestur heyrði hjúkrunarkonuna lýsa í símtali við fangamálastofnun, hvað hann hefði mikla þörf fyrir vistaskipti og segja að lokum: Svo hefur hann húmor. Fljótlega kom símbréf um að flytja hann á Kvíabryggju. Í erfisdrykkju Gests var mér bent á fangavörð á Litla-Hrauni. Mér kom í hug, að eiginlega hefðu þeir verið vinnufélagar. Á Kvíabryggju var Gestur fljótt kominn í smíðar. Dómsúttekt lauk á fimm árum og fjórum mánuðum og endaði við störf í Reykjavík hálft ár. Gestur hætti kúabúskap fyrir nokkrum árum, en hirti á Steinsstöðum geldneyti frá Bakka.

Á skírdagsmorgun hringdi ég í Gest til að láta hann vita af erindi í Útvarpinu um Þóru Gunnarsdóttur og Sigrún Ingólfsdóttir, skólastjórafrú á Hólum, flutti. Vel lá á Gesti. „Hér er 17. júní-veður,“ sagði hann. Ég lofaði heilsuhælið í Hveragerði eftir dvöl þar. Hann langaði að fara þangað, en kvað ekkert vera að sér. Annan páskadag var hann allur.

Björn S. Stefánsson

(Birtist áður í Morgunblaðinu 30. maí 2015)

 

Útförin

Útfarardagurinn 29. apríl var fagur. Kirkjan á Bakka er snotur, frá 1843, og varð því sóknarkirkja Rannveigar á Steinsstöðum. Jónas sonur hennar fór síðast frá Íslandi 1842. Kirkjan er hæfilega stór fyrir útför, eins og best gerist; þær systur sorg og gleði, vegna vinarhugar, ásamt gestunum fylltu guðshúsið.

Hér kemur að því, sem við Gestur ræddum aldrei. Gestur var nefnilega í skáldskapnum, ekki í skáldunum, benti mér reyndar einu sinni út um eldhúsgluggann á foss ofan við húsið: þarna er Gljúfrabúi. Eftir jarðsetninguna skyggndist ég um eftir leiðum vitorðsmanna haustið 1946, þegar hluta af jarðneskum leifum Jónasar Hallgrímssonar var komið fyrir á laun í grafreitnum. Ég rifjaði síðar upp fyrir mér ritaða frásögn sonar prestsins, sem við þetta var riðinn, af þeim feginleik, sem aldrei brást, þegar vitorðsmennirnir hittust, en ekki mátti afhjúpa, eins og hann, sr. Ágúst Sigurðsson, segir í Degi-Tímanum 1997, og sé þá enn ívið snemmt að lýsa. Nú fyrst skil ég leynd sr. Ágústs. Faðir hans, embættismaður, varð brotlegur gegn stjórnvaldi, ásamt nokkrum dalbúum. Greinaflokki í blaðinu fylgja myndir af þeim. Syninum þótti því ívið snemmt að lýsa frekar, en ekki mátti dragast að setja milli lína, þar sem þegar árið 1996, ef til vill fyrr, var farið að halla undan fyrir honum. Með þessum brögðum dalbúa og prests var haldið eftir á Bakka því, sem norðlensk skáld, náttúrufræðingar og allur almenningur nyrðra höfðu óskað opinberlega eftir.

 

Saga af réttarfari og alþýðumenningu

Eftir atburðinn á Steinsstöðum 27. apríl 1996 var Gestur í varðhaldi á Akureyri, í einangrun, fékk hvorki að hlusta á útvarp né sjá blöð, en bækur voru þar til aflestrar. Honum fannst bókavalið ekki merkilegt. Þá gerist það, að inn til hans kemur Pétur Pétursson, settur héraðslæknir. Gestur hugsaði: Það er geðrannsóknin. Pétur víkur talinu að vísnagerð Gests, sem svarar, að hann geri aldrei vísu. Þá veit Pétur betur. Þannig var, að Gestur sendi daglega bréf úr varðhaldinu til unga fólksins á Steinsstöðum til að leiðbeina við bústörfin. Þar hafði flotið með vísa, en bréfin ljósrituð og Pétur séð þau. Pétur spyr Gest um ljóðalestur og skáld hans. Gestur kvaðst hafa varast að nefna Jónas, þar sem hann bjó á Steinsstöðum og var í geðrannsókn, og nefnir Davíð. Kanntu eitthvað eftir hann, spyr Pétur. Ég hugsa, að ég kunni hann allan, svaraði Gestur.—Menn mega vita, að heimsókn Péturs var brot á reglum, varðhaldsfanga mátti ekki vitja án réttargæslumanns.

Haustið 1997 var ég dvalargestur í Davíðshúsi á Akureyri, í lítilli íbúð á jarðhæð, sem Akureyrarbær léði aðkomumönnum á sviði fræða og lista. Þá hringir síminn. Hjalti Haraldsson í Ytra-Garðshorni í Svarfaðardal segir Karlakór Dalvíkur ætla að flytja Úr útsæ rísa Íslands fjöll, og halda menn, að ljóðið sé eftir Davíð Stefánsson, en finna því ekki stað. Ekki gat ég svarað. Þá dettur mér í hug Svavar Aðalsteinsson frá Flögu í Hörgárdal. Hann var með okkur Gesti á Hólum og fór þá gjarna með ljóð upp úr sér og var nýlega kominn aftur í átthagana austan af Seyðisfirði og var í Skjaldarvík. Ég hringdi í hann. Hann svaraði, að þetta væri eftir Einar Benediktsson. Ég lét Hjalta strax vita, en fer síðan niður í Amtsbókasafn og leita í ljóðmælum Einars og finn ljóðið ekki. Þá kemur upp í hugann það, sem Gestur hafði sagt Pétri lækni, að hann kynni allan Davíð. Nú vill svo til, að þetta er upp úr kl. 6 á föstudagskvöldi, en ég vissi, að símatími fanga var milli 6 og 7 á föstudögum. Ég hringi því í Litla-Hraun og spyr eftir Gesti og ber upp spurninguna um Úr útsæ rísa Íslands fjöll. Hann svarar að bragði: Þetta er eftir Davíð, úr Háskólaljóðum 1961, annar kafli. Ljóð Davíðs voru í gestaíbúðinni. Ég fletti upp í þeim og fann staðinn. Upphafshending annars kafla var vitaskuld ekki í atriðaskrá. Til þess að svarfdælir lifðu ekki í villu, hringdi ég snarlega í Hjalta og lét hann vita, lét þess samt ekki getið, að þetta væri samkvæmt upplýsingum á Litla-Hrauni.

 


Næsta síða »

Höfundur

Lýðræðissetrið
Lýðræðissetrið

Í Lýðræðissetrinu eru rannsakaðar aðferðir við atkvæðagreiðslu og kosningu og veitt ráðgjöf í þeim efnum. Kynning á starfseminni fer fram á vefsíðunni www.abcd.is með útgáfu bóka og útgáfu skjárita.

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband