Íslandsháskóli

Eins og gengur er metingur milli háskóla. Á heimsvísu fer fram einkunnagjöf og röðun, þar sem m.a. birting greina kennara og Nóbelsverðlaun þeirra eru metin. Það er ekki víst, að kennari með margar greinar að baki nýtist skólanum og stúdentum hans betur en kennari með fáar greinar. Það er ekki heldur víst, að Nóbelsverðlaunahafi sé þarfur stúdentum. Á landsvísu ávinna kennarar sér stig fyrir sumt, og stigunum fylgja peningar, en ekki fyrir annað, svo sem það að vera góður kennari. Þegar greinabirting er orðin tekjuöflun, getur verið varasamt fyrir háskólastarfsmann að verja tímanum í það, sem er frumlegt og óþekkt.

Umfjöllun um Landbúnaðarháskóla Íslands má verða til skilnings á því, hvað hækkar háskóla í mati. Við það að Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, gerðist að auki prófessor við Háskóla Íslands, töldust ritverk hans til Háskólans. Kári er meðhöfundur allra ritverka Íslenskrar erfðagreiningar. Þá komst skólinn í árlega skrá um bestu háskóla heimsins. Háskóli Íslands varð ekki á neinn hátt betri skóli fyrir stúdenta við þessa aðild Kára að honum hjá því að hafa hann tiltækan við kennslu og rannsóknir sem nágranni Háskólans í Vatnsmýrinni.

Þegar unnið var að því síðastliðinn vetur að fella Landbúnaðarháskólann undir Háskóla Íslands, stóð til boða ný stofnun á Hvanneyri, um votlendismál, en því aðeins að hún væri undir Háskóla Íslands. Spurt var, en ekki svarað, hvernig fé fengist því aðeins í votlendisfræði, að þau væru undir Háskóla Íslands. Votlendisrannsóknastofnun á Íslandi hlyti að komast strax í samband við slíkar stofnanir erlendis og starfsmenn hennar yrðu umsvifalítið meðhöfundar að sameiginlegum skýrslum. Þær skiluðu Háskóla Íslands stigum við röðun háskóla heimsins. Þau stig nýttust hins vegar ekki til metorða, ef þau féllu til stofnun undir litlum háskóla.

Landbúnaðarháskóli Íslands á rætur í Atvinnudeild háskólans, sem varð til fyrir um 80 árum. Þar var fiskideild, iðnaðardeild og búnaðardeild. Hvað sem heitinu leið var Atvinnudeildin ekki á forræði Háskóla Íslands. Síðar fengu deildirnar veglegri nöfn, nefnilega Hafrannsóknastofnun, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Iðntæknistofnun og Rannsóknastofnun landbúnaðarins, sú síðastnefnda með aðalstöð á Keldnaholti og varð ein stoða Landbúnaðarháskóla Íslands við sameiningu við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri árið 2005. Þannig fengu ýmsir starfsmenn á Keldnaholti heiti háskólakennara og kennsluskyldu. Um leið varð mat á starfi þeirra eins og mat á öðrum háskólakennurum, þegar reiknuð er fjárveiting til háskóla með talningu stúdenta, en slíkur mælikvarði er ekki lagður á rannsóknastofnanir.

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri féll að þeirri skipan, sem var í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, með eigin háskóla fyrir landbúnað. Þar sem ég er kunnugastur, í Noregi, var svo einnig um verkfræði og viðskiptafræði, að háskólamenntunin var í nafni atvinnugreinanna. Þegar landbúnaðarháskóli dana var orðinn umkringdur af höfuðborginni, var ætlunin að flytja hann á Jótland. Meðal starfsmanna var mikil andstaða við það. Svo fór, að hann var felldur undir almenna háskólann í Kaupmannahöfn. Þurfa starfsmenn því ekki að óttast að verða neyddir til að flytja. Þegar litið er til Íslands, var það einmitt, þegar yfir vofði fækkun starfsmanna vegna almenns niðurskurðar, að fylgja átti eftir ekki alveg nýrri hugmynd um að fella Landbúnaðarháskóla Íslands undir Háskóla Íslands. Starfsmenn á Keldnaholti kynnu að komast í betra skjól í niðurskurði sem starfsmenn Háskóla Íslands.

Ráð Háskóla Íslands telur brýnt að fá Landbúnaðarháskóla Íslands undir sig til eflingar matvælaframleiðslu í landinu. Athuga ber, að Hafrannsóknastofnun er ekki undir Háskóla Íslands, og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum er ekki undir forræði Háskóla Íslands, hvað sem nafninu líður. Báðar þessar stofnanir eru vitaskuld mikilvægar í matvælaframleiðslu.

Rektor Háskóla Íslands telur mestan ávinning við nýskipan háskóla vera að sameiningu Háskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands. Í ljósi þess, sem að framan segir um verðleikaskrá háskóla heimsins, má ætla, að ávinningurinn sé meðal annars fólginn í því að bæta stöðuna á þeirri skrá. Umfjöllun um eflingu háskóla landsins þarf að fara úr slíkum farvegi og sömuleiðis verða óháð tímabundnum ástæðum á vettvangi stjórnmála. Það mætti verða með því, að hér verði einn allsherjarháskóli, Íslandsháskóli. Undir hann falli allir háskólar og sem flestar rannsóknastofnanir og hlíti almennum reglum hans um gæði, en hafi verulegt frjálsræði í fjármálum og öflun tekna af verkefnum, líkt og Tilraunastöðin á Keldum nýtur. Hver starfsmaður sé ráðinn til einstaks háskóla/rannsóknastofnunar, en því sé svo fyrir komið, að verk hans teljist til verðleika Íslandsháskóla í mati heimsins, á sama hátt og verk Kára Stefánssonar í Íslenskri erfðagreiningu bættust á verðleikaskrá Háskóla Íslands, þegar hann taldist til prófessora við læknadeildina, en starfaði áfram á stofnun, sem nú er reyndar í útlendri eigu.

Björn S. Stefánsson

(birtist áður í Morgunblaðinu 11. júní 2014: 20)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Lýðræðissetrið
Lýðræðissetrið

Í Lýðræðissetrinu eru rannsakaðar aðferðir við atkvæðagreiðslu og kosningu og veitt ráðgjöf í þeim efnum. Kynning á starfseminni fer fram á vefsíðunni www.abcd.is með útgáfu bóka og útgáfu skjárita.

Mars 2025

S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband