Bankar búa til bú

Kúabúið á Korpúlfsstöðum var stærsta kúabú á Norðurlöndum um 1930, byggt upp fyrir fé, sem útgerð Kveldúlfs hafði aflað. Búið stóð aldrei undir sér, sú var niðurstaða rannsóknar á vegum Háskóla Íslands. Síðar hafa ýmsir lagt fé í stórbúskap með misjöfnum árangri. Nýjasta dæmið er útgerðin Skinney-Þinganes á Höfn í Hornafirði, sem þar, á Mýrum, á stærsta kúabú landsins.

 

Þegar bankarnir bjuggu til ósköp af peningum fyrir um áratug, margfalt það, sem svaraði til innstæðna, buðu þeir kúabændum óspart lánsfé, til að þeir gætu aukið framleiðsluna með tæknilega fullkomnasta mjaltabúnaði. Ráðgjafi um kúabúskap í Danmörku, Snorri Sigurðsson, sem áður vann hjá Landssambandi kúabænda, gerir grein fyrir mjólkurframleiðslu í Danmörku í nýlegu Bændablaði. Hann vísar til athugana á því, hvaða búnaður við að koma mjólkinni úr júgra í mjólkurtank er dýrastur. Það er með mestri tækni. Í samræmi við það fréttist, að bændur erlendis losi sig við mjaltara og taki í þeirra stað í notkun mjaltagryfjur.

Mjaltagryfjur eru af ýmsu tagi. Bóndi, sem lengi hefur haft slíkt fyrirkomulag, segir, að því, sem hann spari í vexti og afborganir miðað við mjaltara, geti hann varið til að kosta mann til afleysinga og sett hann að auki til annarra verka milli mjalta. En hér á landi eru mjaltarar sú tækni, sem sækir á, með bankafé.

Ýmsir vilja leika sér að búskap í huganum. Frægt varð upp úr 1960, þegar Framkvæmdabanki ríkisins setti fé í andabú í Álfsnesi á Kjalarnesi. Slíkt var opinbert mál og mátti því ræða. Nú geta bankamenn með leynd sett fé í bú; það eru peningar, sem bankarnir búa til úr engu. Svínabú hafa risið fyrir slíkt fé. Þegar þau standa illa, hefur bankinn fært niður skuldir búsins, og það heldur áfram framleiðslu. Ég veit um bónda, sem lengi hefur búið við svín, að fyrirferð það, sem fjölskyldan hefur ráðið við, en hefur sætt verðlagi á afurðum, sem mótast af stórfelldri niðurfærslu skulda bankasvínabúskapar.

Ráðherra landbúnaðarmála vill hafa búvörusamning ríkis og bænda þannig, að samið verði um kjör allra búgreina í einu í stað samnings vegna hverrar greinar fyrir sig, eins og verið hefur. Með því móti gefst færi til að meta í heild og stuðla að því, sem menn vilja ætla landbúnaðinum.

Kúabúið á Korpúlfsstöðum var almennt vel metið, til að mynda gerði félagsskapur bænda, Búnaðarfélag Íslands, Thor Jensen, sem kom búinu upp, að heiðursfélaga. Þá þótti mikils um vert að rækta land og tryggja vaxandi mannfjölda í útgerðarstaðnum Reykjavík mjólk. Okkar tími hefur sín markmið, sem reyndar eru ekki á eina lund. Almennur búvörusamningur með markmið samtímans gæti orðið fánýtur, meðan bankarnir hafa tækifæri til að búa til peninga úr engu og setja þá í búrekstur með leyndum kjörum eftir höfði bankamanna óháð almennum markmiðum eða í andstöðu við þau.

Björn S. Stefánsson

(Birtist áður í Morgunblaðinu 14. maí 2015)


Tvær sögur af forsetaframboði (eftirmæli)

Stefán Þ. Þorláksson fæddist 28. september 1930. Hann lést 22. ágúst 2014. Útför Stefáns fór fram 1. september 2014.

Menn minnast maklega frásagnarlistar Stefáns Þorlákssonar. Leikur hans með frásögur linaði þrautir og sárindi eftir bílslysið, sem hann lenti í 17 ára og getið var í eftirmælum hér í blaðinu. Þá brotnaði hryggurinn og höfuðkúpan. Eftir slysið var hann um tíma án meðvitundar. Þrautir eftir áverka og löskuð líffæri voru viðfangsefni lækna alla ævi hans. Atvik í kringum slysið ollu honum sárindum, sem ekki voru meðfæri lækna. Sárindin földust undir brosi og hlátri og komu sjaldan fram, en þá var harmurinn þungur. 

Þétt handtak Stefáns var engu líkt. Það var hressilegt ákall um vináttu. Vitaskuld varð honum fleira en vinátta og leikur með frásögur til að lina þrautir og sárindi. Sjaldnast sagði hann af sjálfum sér. Í tveimur frásögum kunna orð hans að hafa orðið dráttur í sögu þjóðarinnar; reyndar vörðuðu þær báðar forsetaframboð. Í afmæliskaffi Stefáns áttræðs á dvalarheimilinu á Þórshöfn gerðist ég svo djarfur að segja þær; áður hafði hann flutt gestum kvæði um ástina eftir Einar Benediktsson, vitaskuld upp úr sér. Hann lét sér endursögn mína af sögunum vel líka. Því leyfi ég mér að birta þær.

Fyrri atburðurinn var, þegar Stefán var kominn til starfa á Hagstofunni (1965-1968). Fyrst þarf að geta þess, að Kristinn og Sæmundur Stefánssynir frá Völlum í Svarfaðardal voru oft við veiðar í Svalbarðsá og héldu þá til heima á Svalbarði. Þannig eignaðist Stefán ungur vináttu þeirra og kynntist því einnig Sigríði, systur þeirra, Thorlacius. Hún var þjóðkunn fyrir störf að félagsmálum, meðal annars sem formaður kvenfélagasambandsins og sambands framsóknarkvenna. Maður hennar var Birgir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu. Stefán átti eitt sinn erindi fyrir Hagstofuna við Halldór Pálsson, búnaðarmálastjóra. Þegar hann kom í Bændahöllina, var honum sagt, að menn væru inni hjá Halldóri, og var honum boðið sæti og kaffibolli, meðan hann biði. Skömmu síðar kemur Halldór fram, gengur til Stefáns og heilsar með virktum og segir, að hjá honum séu menn, og nefnir Kristján Thorlacius, og ræði það, að Birgir Thorlacius verði boðinn fram til forseta. Þá sagði Stefán að bragði: Hann gæti orðið ágætis forsetafrú. Við þessi orð strauk Halldór hendinni niður eftir sínu langa andliti, eins og hann átti til, þegar hann skildi eitthvað sniðugt. Þar með lauk því framboðsmáli.

Síðan var það í janúar 1980, að Stefán lá á Landspítalanum vegna hryggbrotsins, lá þar á stofu með erlendum manni, sem ekki skildi íslensku. Þá kom til hans trúnaðarvinur hans, Vigdís Finnbogadóttir, leikhússtjóri. Hún sagði honum það, sem ekki var opinbert, að til stæði, að hún yrði forsetaframbjóðenda íslenskra kvenna. Stefán sagði að bragði: Láttu engan mann heyra þetta. Forsetinn er forseti allrar þjóðarinnar. Stefán taldi, að slík orð opinber hefðu getað riðið baggamuninn, þegar kosið var í júní.

Björn S. Stefánsson

(birtist áður í Morgunblaðinu 9. október 2014)


Landbúnaðarmálin: fastir liðir

Þegar Samkeppnisstofnun úrskurðaði í haust um verðlagningu MS, komu fram eins og fastir liðir í umræðu um landbúnaðarmál orðin einokun, Jónas frá Hriflu og Korpúlfsstaðir. Fyrir næstu sennu væri rétt að athuga eftirfarandi.

Í íslensku máli eru tvö hugtök um það sem víða kallast monopol. Annað er einkasala og hitt er einokun, og á það við, þegar því er haldið fram, að einkasöluaðstaða sé ok. Einkasala er hlutlaust orð í þessu efni. Ýmsir hafa viljað einkasölu með lögum til að draga úr líkum á einokun.

Jónasi frá Hriflu er eignað ýmislegt, sem menn hafa fundið að í landbúnaðarmálum. Hann sat á þingi 1922-1949 og hafði reyndar aldrei forystu um landbúnaðarmál á þingi, það sáu aðrir um í flokki hans, Framsóknarflokknum, og öðrum flokkum.

Í sambandi við lög um mjólkurvinnslu og sölu er því gjarnan haldið fram, að afurðasölulögin frá 1935 hafi komið Korpúlfsstaðabúinu í Mosfellssveit á kné, og raunar hafi það vakað fyrir Framsóknarflokknum, að svo færi. Thor Jensen, útgerðarmaður í Kveldúlfi, kom búinu á fót með mikilli túnrækt. Búnaðarfélag Íslands gerði hann að heiðursfélaga fyrir þá ræktun. Kúabúið var talið stærst kúabúa á Norðurlöndum. Ólafur Thors alþingismaður, sonur þessa búnaðarfrömuðar, sagði um mjólkurlögin, nýorðinn formaður Sjálfstæðisflokksins, þegar rætt var á Alþingi í desember 1934, hvaða mál þyrfti að afgreiða fyrir jól, að lögin væru „eitt af þeim málum, sem svo að segja allt þingið er sammála um, að ná skuli fram að ganga“. Við aðra umræðu lýsti hann beinlínis eftir óskum manna og tillögum, „svo að einungis lítil umræða þurfi fram að fara við 3. umræðu, og aðeins að forminu til“.

Reykjavíkurbær keypti Korpúlfsstaðabúið ekki löngu síðar. Niðurstaða rannsóknar á vegum Háskóla Íslands var, að búið hefði aldrei staðið undir sér, meðan Thor Jensen stóð fyrir því.

Björn S. Stefánsson

(Birtist áður í Morgunblaðinu 16. desember 2014: 30)


Um samkeppni

Lítil saga getur vísað á merkilegt mál. Ég hitti um daginn kunningja minn, borgfirðing, og sagði honum frá heimsókn á bæ í Borgarfirði, þar sem er gert út á útreiðar útlendinga og þeim veittur allur viðurgerningur, og gengur vel. Kunninginn kunni að segja frá manni í næsta dal, sem ætti bágt með að reka áfram gistingu, sem var í smáum stíl. Það hefðu nefnilega verið settar reglur, sem heimiluðu ekki veitingar, þar sem matur úr eldhúsi væri borinn í gegnum setustofu í borðstofu; útreiðamaðurinn má reyndar leggja mönnum til nesti á ferðum. Það kynni að verða manninum of dýrt að breyta húsakynnum samkvæmt reglunum. Þetta gerir stærri gistihúsum ekki til. Með þessu móti er gripið inn í samkeppni, umbúðir um gistingu og veitingar eru ekki mál, sem menn ráða og ferðamenn fá að velja og hafna. Hér er um að ræða mikilvægar forsendur samkeppni, sem birtast á mörgum sviðum.

Það hét í upphafi, að Evrópusambandið skyldi koma á samkeppni um öll lönd þess, og íslendingar urðu þátttakendur í því með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Með margs konar regluverki er tekið fram fyrir hendur framleiðenda og neytenda með því, að framleiðendur eru skyldaðir til að hafa ákveðinn umbúnað um starfsemi sína, en hitt væri að láta samkeppnina vera um verð og gæði, eins og tíðkaðist, og ég vil ætla, að tíðkist mest í öðrum heimshlutum.

Ofangreint dæmi úr Borgarfirði er um regluverk, sem íþyngir sumum, en ekki öðrum; það raskar því samkeppnisskilyrðum. Ástæða er til að ætla, að hvers konar regluverk sé í þágu þeirra, sem eru stórir og eru í fjölmenni, en bitni á smárekstri og skilyrðum, sem Ísland býr mönnnum. Ég sakna þess, að Samkeppniseftirlitið láti sig slíka mismunun varða. Því er einmitt skylt, að vekja athygli ráðherra og almennings, ef álitið er, að ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla torveldi samkeppni í viðskiptum.

Utanríkisráðuneytið sagði frá því um daginn, að fyrir Alþingi lægju um 80 regluverk vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þau væru vissulega sum íþyngjandi, en „fyrirtækin“ vildu þola það, þau mætu það mest að fá að vera alveg eins og væri í Evrópusambandinu. Þau fyrirtæki og þeir hagsmunir, sem ég hef bent á, sem eru smáir eða hafa horfið vegna regluverks, hafa vitaskuld ekkert um málið að segja. Umræða um þetta er engin hér á landi af hendi þeirra, sem bera sérstaka ábyrgð og ættu að hafa afl til þess, ég nefni stjórnarráðið og háskóla, sem starfa að Evrópufræðum. Þá verður að ætlast til nokkurs af stjórnmálaflokkum, sem allir hljóta að vilja veg smærri fyrirtækja og valfrelsi neytenda.

Mér segir svo hugur, að hnignun efnahags Evrópusambandsins stafi ekki lítið af íþyngjandi regluverki, sem er samið í Brussel undir áhrifum sterkra hagsmunaafla með tugþúsundir málafylgjumanna á göngum Sambandshúsa. Svo gæti einnig verið um byggðir Íslands, sem eiga í vök að verjast, að framleiðsla, sem eru náttúruleg skilyrði fyrir hér, sé gerð dýr til að fullnægja skilyrðum, sem neytendur fá ekki tækifæri til að meta, hvort eru nokkurs virði.

Björn S. Stefánsson

(birtist áður í Morgunblaðinu 9. október 2014)


Skólastaðurinn Hvanneyri

Um sumarið fyrir sex árum var þeim stefnt saman á Hvanneyri, sem brautskráðust úr framhaldsdeild bændaskólans fjörutíu árum áður, ásamt kennurum (ég var einn þeirra). Þetta var reyndar fyrsti hópurinn, sem var í þriggja ára framhaldsdeild. Nú var orðinn til Landbúnaðarháskóli Íslands. Við urðum dálítið undrandi í upphafi, þegar í ljós kom, að rektor var ekki viðstaddur. Ég hygg, að við höfum öll samsamað skólann og skólastjóra, eins og við kynntumst því undir Guðmundi Jónssyni (skólastjóra 1947-1972), og teldum þessi tímamót svo merk, að rektor hlyti að sýna það líka með því að vera viðstaddur afmælið.

Þetta varð samt ánægjuleg samkoma og skemmtileg kynning á staðnum. Ég veit ekki hvað aðrir hugsuðu vegna fjarveru rektors á þessari stundu um framtíð Hvanneyrar. Síðar varð ljóst, að fjarvera hans mátti vera til marks um ný viðhorf.

Ég tel víst, að menn hafi gert ráð fyrir, að sameining Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins í Landbúnaðarháskóla Íslands mundi leiða til eflingar Hvanneyrarstaðar. Nú virðist hins vegar sem staðurinn sé að tæmast af fólki. Allmargir starfsmenn koma akandi langt að til starfa þar og hverfa þaðan um leið og verki er lokið. Þá eru þeir, sem stunda fjarnám.

Það er ekki rétt að líta þetta persónulega. Spurningin er sú, hvernig geti farið öðru vísi en að mannvirkin á Hvanneyri verði aðeins hrörnandi umgerð um starfsemi, sem stunduð er úr Reykjavík með akstri fram og til baka daglega (á tímum orkusparnaðartals).

Ég hef ekki trú á, að starfsemi, eins og verið hefur á Hvanneyri til að búa menn undir störf tengd landbúnaði, fái notið sín í Háskóla Íslands, þar sem bitist er um fé til hundraða deilda, stofnana og menntasviða. Í þessu samhengi er ástæða til að líta á, hvernig fór um kennaranámið, þegar það var fellt undir Háskóla Íslands. Mér skilst, að sú tilfinning stúdenta, sem fylgir því að vera samferða og stefna að sama starfi, hafi veikst. Slík samstaða getur verið mikilvæg á mótunarárum. Þannig hefur það verið á Hvanneyri. Það er dálítið annað en að vera stakur stúdent í manngrúa, þar sem hver fyrir sig safnar stigum, sem leiða til prófgráðu.

Stærðinni fylgir ávinningur, er vanaviðkvæði. Ég vil líta á, hvernig má sníða stakk eftir vexti. Ég vil treysta því, að menn finni ráð, þegar stærðina vantar, að bæta úr með aðfenginni aðstoð.

Hólaskóli er sniðinn að tveimur-þremur efnum, efnum þar sem aðrir gera ekki betur og býður BS-nám. Þetta væri ráðlegt á Hvanneyri, en hafa þar um leið áfram almenna búfræðikennslu og ábyrgðina á garðyrkjufræði. Fyrst þarf þá að endurreisa Rannsóknastofnun landbúnaðarins og skipa henni sama sess og Hafrannsóknastofnun, Nýsköpunarmiðstöð (áður Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnun), Orkustofnun og Veðurstofunni. Háskólarnir, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Akureyri, sinna sjávarútvegsfræði, verkfræði, eðlisfræði og tæknifræði án þess að hafa þessar grónu rannsóknarstofnanir undir. Þá yrði aftur til Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, sem sinnir sínum aðalefnum, kennslu í búvísindum og umhverfisstjórn, og bætir sig með samstarfi við rannsóknarstofnanir, en auk kennslu gæfu kennarar sig að rannsóknum á vegum háskóla síns og í samstarfi við rannsóknarstofnanirnar, eins og gerist og gengur og ástæður eru til. Þannig þyrfti að skipa til, að starfsmenn og stúdentar fyndu til sín sem heild. Kann nokkur ráð til þess á tímum, þegar aðrar skyldur og tækifæri toga menn annað?

Björn S. Stefánsson

(birtist í Bændablaðinu 20. nóvember 2014)


Íslandsháskóli

Eins og gengur er metingur milli háskóla. Á heimsvísu fer fram einkunnagjöf og röðun, þar sem m.a. birting greina kennara og Nóbelsverðlaun þeirra eru metin. Það er ekki víst, að kennari með margar greinar að baki nýtist skólanum og stúdentum hans betur en kennari með fáar greinar. Það er ekki heldur víst, að Nóbelsverðlaunahafi sé þarfur stúdentum. Á landsvísu ávinna kennarar sér stig fyrir sumt, og stigunum fylgja peningar, en ekki fyrir annað, svo sem það að vera góður kennari. Þegar greinabirting er orðin tekjuöflun, getur verið varasamt fyrir háskólastarfsmann að verja tímanum í það, sem er frumlegt og óþekkt.

Umfjöllun um Landbúnaðarháskóla Íslands má verða til skilnings á því, hvað hækkar háskóla í mati. Við það að Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, gerðist að auki prófessor við Háskóla Íslands, töldust ritverk hans til Háskólans. Kári er meðhöfundur allra ritverka Íslenskrar erfðagreiningar. Þá komst skólinn í árlega skrá um bestu háskóla heimsins. Háskóli Íslands varð ekki á neinn hátt betri skóli fyrir stúdenta við þessa aðild Kára að honum hjá því að hafa hann tiltækan við kennslu og rannsóknir sem nágranni Háskólans í Vatnsmýrinni.

Þegar unnið var að því síðastliðinn vetur að fella Landbúnaðarháskólann undir Háskóla Íslands, stóð til boða ný stofnun á Hvanneyri, um votlendismál, en því aðeins að hún væri undir Háskóla Íslands. Spurt var, en ekki svarað, hvernig fé fengist því aðeins í votlendisfræði, að þau væru undir Háskóla Íslands. Votlendisrannsóknastofnun á Íslandi hlyti að komast strax í samband við slíkar stofnanir erlendis og starfsmenn hennar yrðu umsvifalítið meðhöfundar að sameiginlegum skýrslum. Þær skiluðu Háskóla Íslands stigum við röðun háskóla heimsins. Þau stig nýttust hins vegar ekki til metorða, ef þau féllu til stofnun undir litlum háskóla.

Landbúnaðarháskóli Íslands á rætur í Atvinnudeild háskólans, sem varð til fyrir um 80 árum. Þar var fiskideild, iðnaðardeild og búnaðardeild. Hvað sem heitinu leið var Atvinnudeildin ekki á forræði Háskóla Íslands. Síðar fengu deildirnar veglegri nöfn, nefnilega Hafrannsóknastofnun, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Iðntæknistofnun og Rannsóknastofnun landbúnaðarins, sú síðastnefnda með aðalstöð á Keldnaholti og varð ein stoða Landbúnaðarháskóla Íslands við sameiningu við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri árið 2005. Þannig fengu ýmsir starfsmenn á Keldnaholti heiti háskólakennara og kennsluskyldu. Um leið varð mat á starfi þeirra eins og mat á öðrum háskólakennurum, þegar reiknuð er fjárveiting til háskóla með talningu stúdenta, en slíkur mælikvarði er ekki lagður á rannsóknastofnanir.

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri féll að þeirri skipan, sem var í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, með eigin háskóla fyrir landbúnað. Þar sem ég er kunnugastur, í Noregi, var svo einnig um verkfræði og viðskiptafræði, að háskólamenntunin var í nafni atvinnugreinanna. Þegar landbúnaðarháskóli dana var orðinn umkringdur af höfuðborginni, var ætlunin að flytja hann á Jótland. Meðal starfsmanna var mikil andstaða við það. Svo fór, að hann var felldur undir almenna háskólann í Kaupmannahöfn. Þurfa starfsmenn því ekki að óttast að verða neyddir til að flytja. Þegar litið er til Íslands, var það einmitt, þegar yfir vofði fækkun starfsmanna vegna almenns niðurskurðar, að fylgja átti eftir ekki alveg nýrri hugmynd um að fella Landbúnaðarháskóla Íslands undir Háskóla Íslands. Starfsmenn á Keldnaholti kynnu að komast í betra skjól í niðurskurði sem starfsmenn Háskóla Íslands.

Ráð Háskóla Íslands telur brýnt að fá Landbúnaðarháskóla Íslands undir sig til eflingar matvælaframleiðslu í landinu. Athuga ber, að Hafrannsóknastofnun er ekki undir Háskóla Íslands, og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum er ekki undir forræði Háskóla Íslands, hvað sem nafninu líður. Báðar þessar stofnanir eru vitaskuld mikilvægar í matvælaframleiðslu.

Rektor Háskóla Íslands telur mestan ávinning við nýskipan háskóla vera að sameiningu Háskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands. Í ljósi þess, sem að framan segir um verðleikaskrá háskóla heimsins, má ætla, að ávinningurinn sé meðal annars fólginn í því að bæta stöðuna á þeirri skrá. Umfjöllun um eflingu háskóla landsins þarf að fara úr slíkum farvegi og sömuleiðis verða óháð tímabundnum ástæðum á vettvangi stjórnmála. Það mætti verða með því, að hér verði einn allsherjarháskóli, Íslandsháskóli. Undir hann falli allir háskólar og sem flestar rannsóknastofnanir og hlíti almennum reglum hans um gæði, en hafi verulegt frjálsræði í fjármálum og öflun tekna af verkefnum, líkt og Tilraunastöðin á Keldum nýtur. Hver starfsmaður sé ráðinn til einstaks háskóla/rannsóknastofnunar, en því sé svo fyrir komið, að verk hans teljist til verðleika Íslandsháskóla í mati heimsins, á sama hátt og verk Kára Stefánssonar í Íslenskri erfðagreiningu bættust á verðleikaskrá Háskóla Íslands, þegar hann taldist til prófessora við læknadeildina, en starfaði áfram á stofnun, sem nú er reyndar í útlendri eigu.

Björn S. Stefánsson

(birtist áður í Morgunblaðinu 11. júní 2014: 20)


Rammaáætlun

Undirbúningur að gerð rammaáætlunar um virkjun og vernd hófst árið 1999 með skipun verkefnisstjórnar. Hún kvaddi til marga kunnáttumenn. Þeir áttu eftir megni að draga úr ágreiningi um ráðstöfun virkjunarkosta með hlutlægni, en það er að beita kunnáttu með sameiginlegt sjónarhorn. Það var gert í fernu lagi, með því að taka fyrir náttúrufar og minjar, útivist og hlunnindi, hagræn áhrif á ferðaþjónustu, byggð og atvinnu, og í fjórða lagi stofnkostnað og arðsemi virkjunarkostanna. Þetta var gert misjafnlega rækilega.

Þegar þessu lyki, ætlaði verkefnisstjórnin sér að vega hinar fjórgreindu hlutlægu niðurstöður saman og forgangsraða virkjunarkostum. Það kemur ekki fram, hvort hún hafi ætlað að gera þetta á sitt eindæmi eða bera málið sömuleiðis undir þá, sem teldust frekar en hún fulltrúar almenningsálits. Í því, sem verkefnisstjórn gaf út um þetta síðast (Niðurstöður 2. áfanga rammaáætlunar), í júní 2011, er engin ein forgangsröð, reist á hinum fjórgreindu niðurstöðum. Að niðurstöðum 2. áfanga fengnum setti stjórnarráðið þröngan hóp manna til að semja rammaáætlunina, sem var auglýst til umsagnar haustið 2011 og síðan lögð fyrir Alþingi.

Alþingi lauk málinu með ályktun 2013. Hinar andstæðu fylkingar nú og undanfarin ár, stjórn og stjórnarandstaða, hafa haldið áætluninni fram sem faglegu verki af hendi verkefnisstjórnar. Samt getur enginn, þegar spurt er, bent á þann stað í skjölum verkefnisstjórnar, þar sem áætlun hennar birtist. Minna má á, að á fyrstu starfsárum verkefnisstjórnar var því lýst, að vinnubrögðin við rammagerðina ættu að vera gegnsæ. Önnur verkefnisstjórn tók við 2007. Áðurnefndar niðurstöður 2. áfanga 2011, án flokkunar virkjunarkosta í bið, vernd og nýtingu, án ramma, voru því hennar.

Ýmislegt er ógert í rammanum, sem Alþingi samþykkti 2013. Þar er ekki mælt fyrir um, hvernig og hver eigi að meta flutning kosts milli flokka, svo sem úr bið til verndar eða nýtingar. Enn vantar veigamikla virkjunarkosti í áætlunina. Þá þykir sumum vanta í rammann hinar öflugri raflínur.

Um aldamótin fór fram hermileikur nokkurra starfsmanna Orkustofnunar með sjóðval um ráðstöfun virkjunarkosta. Þegar rammaáætlunin, eins og hún kom frá stjórnarráðinu, var til umsagnar haustið 2011, efndi Lýðræðissetrið til sjóðvals um hana meðal þingmanna og varaþingmanna. Tók það um hálft ár. Fyrst var athugað, hvort þeir vildu hafa sjóðvalið gegnsætt eða leynt. Mönnum leist ekki á að hafa það opinskátt. Meðan á þessu stóð, mættust hvarvetna stálin stinn, stjórnarliðar og andstæðingar. Slíkt ástand dregur úr mönnum að tjá sig hver fyrir sig. Þátttaka var svo lítil, að niðurstöður var ekki að marka, en mikilsverð tæknileg reynsla fékkst.

Við framhald og endurnýjun rammaáætlunarinnar þarf vinnubrögð, sem skapa varanlegt traust til hennar. Það er ólíklegt til lengdar, að verk fámennrar verkefnisstjórnar endurspegli almenningsálit á sannfærandi hátt. Svo að dæmi sé tekið, er það ekki á færi kunnáttumanna að meta fyrir hönd almennings Dettifoss ósnortinn á móti hagnaði af rafstöð í Jökulsá á Fjöllum; þar reynir á það, sem ekki er hlutlægt. Ágreining, sem kunnáttumenn geta ekki eytt, þarf að útkljá sem þjóðmál, að fenginni umsögn verkefnisstjórnar og annarra, með aðferð, sem gerir fært að fylgjast með atbeina þátttakenda, sem eru fulltrúar almennings, en það eru vitaskuld alþingismenn.

Fyrir um áratug töldu bæði rannsóknastjórinn hjá Gallup, sem verkefnisstjórnin hafði með í ráðum, og formaður fyrstu verkefnisstjórnarinnar sjóðval ráðlega aðferð við rammagerðina. Síðan hefur frekari reynsla fengist. Eins og staðan er nú, mundi rammaáætlunin uppfærast hægt og sígandi í sjóðvali, og stöðugt má sjá, hver á hvað í henni. Samþykkt Alþingis um hana má endurnýja, hvenær sem ástæða þykir til, með því að leggja hana fyrir þingið, sem hefur færi á að breyta henni, áður en hún er borin upp til ályktunar.

Slíkt sjóðval yrði öðru vísi en það, sem Lýðræðissetrið beitti sér fyrir 2011 og bauð þingmönnum og varaþingmönnum tveggja kjörtímabila að vera með. Það lið var því dreift. Ef stjórnvöld eiga frumkvæði að sjóðvalinu og aðeins þingmenn verða með, hafa þingflokkarnir tækifæri til að móta atkvæðaboð sameiginlega, eftir því sem þeir telja ástæðu til. Hvort sem þingmenn bjóða atkvæði samstillt á vegum þingflokks eða annarra eða sjálfstætt, fær að njóta sín það eðli sjóðvals, að mörg afbrigði máls eru borin upp í einu og fært er að sýna afbrigðunum missterkan atbeina með breytilegum atkvæðaboðum.

Björn S. Stefánsson

(birtist áður í Morgunblaðinu 13. júlí 2013)


« Fyrri síða

Höfundur

Lýðræðissetrið
Lýðræðissetrið

Í Lýðræðissetrinu eru rannsakaðar aðferðir við atkvæðagreiðslu og kosningu og veitt ráðgjöf í þeim efnum. Kynning á starfseminni fer fram á vefsíðunni www.abcd.is með útgáfu bóka og útgáfu skjárita.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband