Tungumál og tækni

Nú sækja óvitar leik, yndi og hrylling í síma sína og önnur tæki. Þar er svo til allt mál enskt. Til eru ráð til að hljóðsetja efnið og gera það að því leyti íslenskt. Það kostar. Það stendur upp á unga ráðamenn þjóðarinnar að kosta verkið.
Ég rifja upp tvö tilfelli, þegar ný tækni kom og íslenskir ráðamenn snöruðu sér í að beita henni í þágu íslensks máls. Skömmu áður en siðaskipti urðu hér um slóðir á 16. öld, var farið að prenta ritað mál með ráðum Gutenbergs. Með siðaskiptunum átti almenningur að geta lesið biblíuna, en áður var hún á máli kirkjunnar manna. Nýja testamentið varð svo til strax til á íslensku og ekki löngu síðar biblían öll. Að þessu stóðu ungir menn. Eins og þá var, varð þannig svo til allt lesefni þjóðarinnar á íslensku, enda höfðu lög landsins ávallt verið á íslensku.
Um miðja 20. öld breiddist sjónvarp út um löndin. Í bandarísku herstöðinni á Miðnesheiði var sjónvarpsstöð, en engin hreyfing var til að hefja íslenskt sjónvarp. Þá gerðist það, að sjónvarp herstöðvarinnar fór að sjást utan hennar og þar með í höfuðborginni. Efnið var vitaskuld á ensku. Æ fleiri heimili í Reykjavík höfðu sjónvarpstæki. Við þessu var brugðist 1964. Valið lið 60 manna varaði við þessu, þar sem farið væri inn í íslenska menningarhelgi með þessu sjónvarpi hersins. Menntamálaráðherra tók það upp í ríkisstjórninni að hefja íslenskt sjónvarp. Fyrst tók aðeins einn ráðherra undir við hann, en svo fór fljótlega, að efnt var í íslenskt sjónvarp.
Þetta er vel kunnugt. Hitt er ekki kunnugt, hvernig þetta bar að. Það var þannig, að Vilhjálmur Þ. Gíslason útvarpsstjóri sneri sér til bandaríska herstjórans hér og lagði að honum að færa sendingar sjónvarps hersins út til íslenskra byggða. Fyrir Vilhjálmi vakti að knýja ráðamenn til að hefja íslenskt sjónvarp, áður en hann léti af störfum vegna aldurs 1967. Eiginlega var herstjóranum ekki heimilt að senda út fyrir herstöðina. Það var almennt um bandarískar herstöðvar utanlands, ekki af virðingu fyrir menningarhelgi, heldur vegna þess að með því að senda út fyrir herstöð vofðu yfir útgjöld á herinn fyrir hönd höfunda sjónvarpsefnisins. Herstjórinn setti sig því í hættu frá yfirboðurum sínum í Bandaríkjunum að láta að óskum um að færa sendingar út fyrir herstöðina. Vilhjálmur ávarpaði þjóðina í íslensku sjónvarpi, þegar það tók til starfa 30. september 1966.
Úr því sem komið er verður þessi frásögn varla sannreynd að fullu. Ragnar Stefánsson, áður ofursti í Bandaríkjaher hér á landi, sagði Stefáni Þorlákssyni frá. Þegar Stefán varð kennari við menntaskólann á Akureyri 1970, kenndi Ragnar þar og allt til 1977. Stefán sagði mér. Allmörgum árum síðar spurði ég hann um málið. Saga hans var þá óbreytt. Svo var yfirleitt um frásögur hans, að þær högguðust varla.
Smám saman varð til í Sjónvarpinu barnaefni á íslensku. Forráðamenn stýrðu efninu. Nú stýra smábörn myndefni sínu. Spurt er, hversu lengi má bíða með að koma upp forriti, sem íslenskar tal á myndefni, áður en svo verður komið, að börnum þyki óeðlilegt að hafa það ekki á ensku.

Björn S. Stefánsson

Birtist áður í Morgunblaðinu 22. desember 2015.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Lýðræðissetrið
Lýðræðissetrið

Í Lýðræðissetrinu eru rannsakaðar aðferðir við atkvæðagreiðslu og kosningu og veitt ráðgjöf í þeim efnum. Kynning á starfseminni fer fram á vefsíðunni www.abcd.is með útgáfu bóka og útgáfu skjárita.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband