Færsluflokkur: Landbúnaður

Landbúnaðarmálin: fastir liðir

Þegar Samkeppnisstofnun úrskurðaði í haust um verðlagningu MS, komu fram eins og fastir liðir í umræðu um landbúnaðarmál orðin einokun, Jónas frá Hriflu og Korpúlfsstaðir. Fyrir næstu sennu væri rétt að athuga eftirfarandi.

Í íslensku máli eru tvö hugtök um það sem víða kallast monopol. Annað er einkasala og hitt er einokun, og á það við, þegar því er haldið fram, að einkasöluaðstaða sé ok. Einkasala er hlutlaust orð í þessu efni. Ýmsir hafa viljað einkasölu með lögum til að draga úr líkum á einokun.

Jónasi frá Hriflu er eignað ýmislegt, sem menn hafa fundið að í landbúnaðarmálum. Hann sat á þingi 1922-1949 og hafði reyndar aldrei forystu um landbúnaðarmál á þingi, það sáu aðrir um í flokki hans, Framsóknarflokknum, og öðrum flokkum.

Í sambandi við lög um mjólkurvinnslu og sölu er því gjarnan haldið fram, að afurðasölulögin frá 1935 hafi komið Korpúlfsstaðabúinu í Mosfellssveit á kné, og raunar hafi það vakað fyrir Framsóknarflokknum, að svo færi. Thor Jensen, útgerðarmaður í Kveldúlfi, kom búinu á fót með mikilli túnrækt. Búnaðarfélag Íslands gerði hann að heiðursfélaga fyrir þá ræktun. Kúabúið var talið stærst kúabúa á Norðurlöndum. Ólafur Thors alþingismaður, sonur þessa búnaðarfrömuðar, sagði um mjólkurlögin, nýorðinn formaður Sjálfstæðisflokksins, þegar rætt var á Alþingi í desember 1934, hvaða mál þyrfti að afgreiða fyrir jól, að lögin væru „eitt af þeim málum, sem svo að segja allt þingið er sammála um, að ná skuli fram að ganga“. Við aðra umræðu lýsti hann beinlínis eftir óskum manna og tillögum, „svo að einungis lítil umræða þurfi fram að fara við 3. umræðu, og aðeins að forminu til“.

Reykjavíkurbær keypti Korpúlfsstaðabúið ekki löngu síðar. Niðurstaða rannsóknar á vegum Háskóla Íslands var, að búið hefði aldrei staðið undir sér, meðan Thor Jensen stóð fyrir því.

Björn S. Stefánsson

(Birtist áður í Morgunblaðinu 16. desember 2014: 30)


Höfundur

Lýðræðissetrið
Lýðræðissetrið

Í Lýðræðissetrinu eru rannsakaðar aðferðir við atkvæðagreiðslu og kosningu og veitt ráðgjöf í þeim efnum. Kynning á starfseminni fer fram á vefsíðunni www.abcd.is með útgáfu bóka og útgáfu skjárita.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband