Bloggfærslur mánaðarins, október 2015

Fiskveiðistjórn með hagfræðiráðum

Athugum hlut hagfræðinnar í fiskveiðistjórn við Ísland eftir að fiskimiðin við landið komust að mestu á forræði ríkisins fyrir fjórum áratugum. Ég benti á það í grein um hugmyndir að baki fiskveiðistjórn í Morgunblaðinu 30. júlí, að helstu efnahagsráðgjafar landsins áttu með sér vandaðar hugmyndir um það, hvernig þar skyldi taka á. Vísað var til hagfræðilegs ráðs til að sjá til þess, að nýting almennings, eins og fiskimiðin eru, verði í hófi. Því ráði var svo aldrei beitt hér.

Næsta merkilega hagfræðilega ábendingin í þessum málum er í eftirfarandi orðum Rögnvalds Hannessonar frá árinu 1994, en hann var þá og til skamms tíma prófessor í fiskihagfræði við Verslunarháskóla Noregs: „Veiðum úr fiskistofnum, sem halda sig á afmörkuðu svæði, þar sem ekki eru of miklar umhverfissveiflur, er hægt að stjórna út frá langtímasjónarmiðum. Allur varanlegur afli byggist á því að grisja fiskistofna hæfilega, m.a. út frá fæðuframboði og afráni eldri fiska á ungviði. Þessi lýsing held ég eigi sæmilega við þorskinn á Íslandsmiðum.“

Ábending Rögnvalds er úr grein í Morgunblaðinu (6. júní). Um páskaleytið árið eftir var Rögnvaldur á málstofu í hagfræði- og viðskiptadeild Háskóla Íslands. Þar reifaði hann, hvernig mætti stjórna fiskveiðum í hafi, sem mörg ríki sækja til veiða í, og hafði hann Barentshaf sem dæmi. Það gerði hann stærðfræðilega og fimlega. Eins og vill verða með stærðfræðilega fimleika í hagfræði, kom ekkert raunhæft út úr. Getur verið því um að kenna, að óhjákvæmilegar forsendur eru margar. Á þessari málstofu voru m.a. nokkrir aðkomumenn auk hagfræðinga, sem höfðu sinnt fiskveiðistjórn fræðilega, í deildinni og á Þjóðhagsstofnun. Að lokinni framsögu hófust umræður um forsendur fiskveiðistjórnar. Í þeim tóku þátt aðkomumennirnir auk Rögnvalds og töluðu mannamál. Staðfestist þar vissulega framangreint álit Rögnvalds. Hagfræðingar deildarinnar og Þjóðhagsstofnunar sátu hjá.

Sá, sem vill kynna sér kjarna hagkvæmrar fiskveiðistjórnar, skyldi lesa grein Rögnvalds frá 1994. Hún var svar við opnu bréfi frá mér. Engin ákvörðun um fiskveiðistjórn hér við land hefur verið studd rökum, eins og hann setti þar fram.

Björn S. Stefánsson

(Birtist áður í Morgunblaðinu 22. ágúst 2015)

 


Hugmyndir að baki stjórn ríkisins á fiskveiðum

Árið 1962 hélt félagið Frjáls menning ráðstefnu í tilefni af ráðagerðum um, að ríki Fríverslunarbandalagsins bættust í Efnahagsbandalag Evrópu. Spurningin var, hvað þá yrði um Ísland, sem í hvorugu bandalaginu var.
Eftirfarandi orð Bjarna Braga Jónssonar á ráðstefnunni eru upphafsorð umræðu um auðlindaskatt á Íslandi:
„Efnahagsbandalagið á að geta skilið, að við eigum þessar auðlindir í þjóðarsameign og þurfum að halda því áfram, og við þurfum með einhverjum hætti að geta takmarkað ásóknina og skattlagt hæfilega þessa uppsprettu. Við höfum gert það með tollapólitíkinni í raun og veru. Þess vegna vil ég halda því fram, að ef við göngum í slíkt bandalag, sem ég tel að muni þá vera með aukaaðild, þá muni vera raunhæft að hækka nokkuð verðið á erlendum gjaldeyri til mótvægis við lækkun tollanna, en taka tilsvarandi hluta af gjaldeyriskaupum frá sjávarútvegi og fiskvinnslu og líta á þann skatt sem auðlindaskatt til þjóðarinnar.“ — Að hækka verð á erlendum gjaldeyri er oftast nefnt gengislækkun.
Í Fjármálatíðindum 1975 útfærði Bjarni málið með greininni Auðlindaskattur, iðnþróun og efnahagsleg framtíð Íslands. Þar kemur fram, að helstu ráðamenn efnahagsstjórnar landsins eru á sama máli og hann. Það var einmitt árið 1975, að íslendingar voru að því komnir að eignast forræði yfir svo til öllum fiskimiðum við landið. Því var eitt atriði í máli Bjarna orðið brýnt úrlausnarefni, það að hafa stjórn á nýtingu fiskimiðanna. Um það efni vísar hann til fræðigreina, sem urðu stofn umræðu um hagfræðilega fiskveiðistjórn; þær eru eftir bretana Gordon (1954) og Scott (1955). Reyndar vísa bretarnir á sóknarstjórn til hagkvæmrar nýtingar sameiginlegrar auðlindar, en í umræðu hér og annars staðar er vísað á aflastjórn, og þykjast menn engu að síður styðja mál sitt með uppstillingu bretanna.
Annað atriði í máli Bjarna var, að það væri réttlátt, að eigandi hinnar sameiginlegu auðlindar, eins og hann kvað þjóðina vera, tæki með valdi (ríkisins) gjald af þeim, sem hagnýttu sér hana. Þar hefur verið föst sú hugsun, að fiskstofnarnir séu auðlind. Svo er ekki, það er lífríkið, sem ber uppi nytjafiskana, sem er auðlind, á sama hátt og skóglendi er auðlind, en ekki skógarviðurinn.
Þriðja atriðið er það, sem felst í orðunum iðnþróun og efnahagsleg framtíð í greinarheiti Bjarna, að sjá til þess, að ríkidæmi sjávarins, sem væri takmarkað, spillti ekki fyrir starfsemi, sem getur vaxið. Það vildi hann gera með því, að ríkið taki hluta af gjaldeyrinum, sem sjávarútvegurinn aflar, og kallar það auðlindaskatt.
Á ráðstefnunni 1962 kom fram, annars vegar, að leitað yrði eftir því við aðild Íslands að Efnahagsbandalaginu, að Ísland héldi forræði fiskimiða—landhelgin var þá 12 mílur, og hins vegar, að öll fyrirtæki bandalagsins hefðu sama rétt til fiskveiða við Ísland, en íslenska ríkið seldi réttinn þeim, sem best byðu; þannig héldu íslendingar arðinum af auðlindinni. Rétturinn, sem þá hefur alltaf verið átt við, er réttur til afla.
Upp úr 1980 bar á því, að þess væri krafist, að fest yrði í lög, að fiskveiðiauðlindin væri sameign þjóðarinnar, og mælt með því, að ríkið seldi aflaheimildir, gjarna af sömu mönnum. Að þessu stóðu þeir, sem leynt og ljóst ætluðu Íslandi stöðu í Efnahagsbandalaginu, því hlaut maður að taka eftir á þessum árum.
Í þessu ljósi verður skilið, hvernig framsal fiskveiðiheimilda komst á í áföngum. Þar er hlutur Halldórs Ásgrímssonar í ráðherrastöðu mestur. Síðan árið 1972 átti Halldór sér þá hugsjón, að Ísland gengi í Efnahagsbandalagið. Hann varð þingmaður Framsóknarflokksins 1974, án þess að flokksmenn hefðu hugmynd um þessa afstöðu hans, og fyrr en varði var hann orðinn varaformaður flokksins og síðar formaður. Hann var þingmaður 1974-78 og 1979-2006 og ráðherra 1983–1991 og 1995-2006, sjávarútvegsráðherra 1983-1991. Það var fyrst í viðtali í Morgunblaðinu 18. ágúst 2006, að mönnum varð kunnugt um þessa staðföstu hugsjón hans, rétt eftir að hann hafði sagt öllu af sér. Það kemur fram í grein Svans Kristjánssonar Lýðræðisbrestir íslenska lýðveldisins. Frjálst framsal fiskveiðiheimilda í Skírni haustið 2013, hvílíkt kapp Halldórs var einmitt í því máli, framsali fiskveiðiheimilda.
Þannig verður einnig skilið, hvers vegna þeir, sem vilja hafa Ísland í Evrópusambandinu, brugðust illa við í ár, þegar lagt var til að miða auðlindagjald á sjávarútveg við afkomu fyrirtækja, en ekki aflamagn. Með því móti verður nefnilega ekki sameiginlegur grunnur til að miða við öll fyrirtæki Evrópusambandsins, eins og gæti orðið með sölu á aflarétti þeim til handa.
Enn má skilja í þessu ljósi það kapp, sem þeir, sem hafa ætlað Íslandi stöðu í Evrópusambandinu, hafa sýnt við að fá sett í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á fiskimiðunum. Slíkt ákvæði yrði efni í málatilbúnað við upptöku Íslands í Evrópusambandið, þar sem menn mættu ætla sér að halda því fram, að með því að viðhafa sölu á aflaheimildum á Íslandsmiðum væru öll fyrirtæki sambandsins við sama borð, íslensk fyrirtæki jafnt og fyrirtæki annarra ríkja sambandsins.

Björn S. Stefánsson

(Birtist áður í Morgunblaðinu 30. júlí 2015)


Gestur Eggertsson (eftirmæli)

Gestur Eggertsson f. á Akureyri 30. maí 1939. Foreldrar Katrín Eiríksdóttir frá Sjónarhól í Hafnarfirði og Eggert Kristjánsson f. í Ytra-Krossanesi við Eyjafjörð. Fyrrverandi eiginkona Guðrún H. Arndal fædd 15. janúar 1943 (skilnaður 1990/1991). Gestur og Guðrún bjuggu í Hafnarfirði og eignuðust:  1) Eggert f. 16. apríl 1964, sonur Heimir Gestur, 2) Guðlaugu f. 14. ágúst 1967, börn Emil Arnar, Jón Aron og Guðrún Marín og 3) Katrínu f. 26. apríl 1973, maki Helgi Þór Helgason, börn Eva Marín og Elmar Darri. Gestur lærði búfræði og húsasmíði. Bjó á Steinsstöðum í Öxnadal frá 1993. Hann lést 6. apríl 2015 og var jarðaður á Bakka 29. apríl.

 

Eftirmæli

Maður kemur inn í fjósið á Steinsstöðum, leiðir stúlkubarn og fer með upp úr sér nokkur ljóð eftir Jónas Hallgrímsson, réttir fram höndina og segir: Hrafn Gunnlaugsson. Bóndi réttir fram hönd og segir: Gestur Eggertsson. Komumaður: Það var hér sem Jónas Hallgrímsson ólst upp, en ekki á Hrauni. Ég veit það, segir Gestur. Hrafn: Það þarf að gera pening úr því. Gestur: Ég á nógan pening. Svo fara þeir út á hlað, þar sem sér til Hraundranga, og aftur þylur Hrafn Jónas. Gestur við Hrafn: Ég sit stundum á kvöldin í stofunni og horfi þangað. Ég þarf ekki aðra með mér við það. Ég get gert það einn.—Gestur bætti við, þegar hann sagði mér frá þessu: Þó það komi ekki nema einn bílfarmur af ferðamönnum á sumri, er þetta ekki lengur sveitabær. Enda þótt Gestur hafi líklega kunnað eyfirsku höfuðskáldin utanað, fléttaði hann ljóð ekki í tal sitt, en gat leikið sér að orðum í spjalli eins og í skáldskap.

Gestur var barnfæddur við Eyjafjörð. Faðir hans var skipstjóri fyrir norðan. Síðar fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur. Hann lærði búfræði á Hólum og svo húsasmíði og stundaði það, átti þá heima í Hafnarfirði. Hann vildi búa í sveit, en konan ekki. Eftir skilnað 1990/91 leitaði hann fyrir sér um jarðnæði í átthögunum nyrðra og keypti Steinsstaði í Öxnadal. Móðir hans fýsti hann að láta verða af því, eins og hugur hans hafði lengi staðið til, studdi hann við kaupin, fluttist með honum norður og var hjá honum. Katrín Gestsdóttir vandist hestum í Hafnarfirði með föður sínum, þau tömdu hesta á Steinsstöðum, og hún giftist Helga á Bakka. Gestur mat Helga manna mest.

Tveimur mánuðum eftir lát Katrínar Eiríksdóttur 1996 kom Sigríður systir Gests, búsett í Reykjavík, norður vegna dánarbúsins. Nú er aðeins einn til frásagnar. Þegar Sigríður var búin til brottfarar við bíl sinn, leiddi ágreiningur með þeim systkinum um muni dánarbúsins til handalögmála. Þar dó hún. Gestur var dæmdur í átta ára fangavist. Krufningsskýrsla gat bent til þess, að hún hefði dáið af geðshræringu.

Gestur fór á Litla-Hraun haustið 1997 og hafði bústjóra á Steinsstöðum. Á Litla-Hrauni endurgerði hann elstu bygginguna. Þá vantaði verkefni. Honum líkaði það ekki, þótti lítið tak í samföngum og vildi fara á Kvíabryggju. Að vísu á maður með þungan dóm ekki að vera þar. Gestur heyrði hjúkrunarkonuna lýsa í símtali við fangamálastofnun, hvað hann hefði mikla þörf fyrir vistaskipti og segja að lokum: Svo hefur hann húmor. Fljótlega kom símbréf um að flytja hann á Kvíabryggju. Í erfisdrykkju Gests var mér bent á fangavörð á Litla-Hrauni. Mér kom í hug, að eiginlega hefðu þeir verið vinnufélagar. Á Kvíabryggju var Gestur fljótt kominn í smíðar. Dómsúttekt lauk á fimm árum og fjórum mánuðum og endaði við störf í Reykjavík hálft ár. Gestur hætti kúabúskap fyrir nokkrum árum, en hirti á Steinsstöðum geldneyti frá Bakka.

Á skírdagsmorgun hringdi ég í Gest til að láta hann vita af erindi í Útvarpinu um Þóru Gunnarsdóttur og Sigrún Ingólfsdóttir, skólastjórafrú á Hólum, flutti. Vel lá á Gesti. „Hér er 17. júní-veður,“ sagði hann. Ég lofaði heilsuhælið í Hveragerði eftir dvöl þar. Hann langaði að fara þangað, en kvað ekkert vera að sér. Annan páskadag var hann allur.

Björn S. Stefánsson

(Birtist áður í Morgunblaðinu 30. maí 2015)

 

Útförin

Útfarardagurinn 29. apríl var fagur. Kirkjan á Bakka er snotur, frá 1843, og varð því sóknarkirkja Rannveigar á Steinsstöðum. Jónas sonur hennar fór síðast frá Íslandi 1842. Kirkjan er hæfilega stór fyrir útför, eins og best gerist; þær systur sorg og gleði, vegna vinarhugar, ásamt gestunum fylltu guðshúsið.

Hér kemur að því, sem við Gestur ræddum aldrei. Gestur var nefnilega í skáldskapnum, ekki í skáldunum, benti mér reyndar einu sinni út um eldhúsgluggann á foss ofan við húsið: þarna er Gljúfrabúi. Eftir jarðsetninguna skyggndist ég um eftir leiðum vitorðsmanna haustið 1946, þegar hluta af jarðneskum leifum Jónasar Hallgrímssonar var komið fyrir á laun í grafreitnum. Ég rifjaði síðar upp fyrir mér ritaða frásögn sonar prestsins, sem við þetta var riðinn, af þeim feginleik, sem aldrei brást, þegar vitorðsmennirnir hittust, en ekki mátti afhjúpa, eins og hann, sr. Ágúst Sigurðsson, segir í Degi-Tímanum 1997, og sé þá enn ívið snemmt að lýsa. Nú fyrst skil ég leynd sr. Ágústs. Faðir hans, embættismaður, varð brotlegur gegn stjórnvaldi, ásamt nokkrum dalbúum. Greinaflokki í blaðinu fylgja myndir af þeim. Syninum þótti því ívið snemmt að lýsa frekar, en ekki mátti dragast að setja milli lína, þar sem þegar árið 1996, ef til vill fyrr, var farið að halla undan fyrir honum. Með þessum brögðum dalbúa og prests var haldið eftir á Bakka því, sem norðlensk skáld, náttúrufræðingar og allur almenningur nyrðra höfðu óskað opinberlega eftir.

 

Saga af réttarfari og alþýðumenningu

Eftir atburðinn á Steinsstöðum 27. apríl 1996 var Gestur í varðhaldi á Akureyri, í einangrun, fékk hvorki að hlusta á útvarp né sjá blöð, en bækur voru þar til aflestrar. Honum fannst bókavalið ekki merkilegt. Þá gerist það, að inn til hans kemur Pétur Pétursson, settur héraðslæknir. Gestur hugsaði: Það er geðrannsóknin. Pétur víkur talinu að vísnagerð Gests, sem svarar, að hann geri aldrei vísu. Þá veit Pétur betur. Þannig var, að Gestur sendi daglega bréf úr varðhaldinu til unga fólksins á Steinsstöðum til að leiðbeina við bústörfin. Þar hafði flotið með vísa, en bréfin ljósrituð og Pétur séð þau. Pétur spyr Gest um ljóðalestur og skáld hans. Gestur kvaðst hafa varast að nefna Jónas, þar sem hann bjó á Steinsstöðum og var í geðrannsókn, og nefnir Davíð. Kanntu eitthvað eftir hann, spyr Pétur. Ég hugsa, að ég kunni hann allan, svaraði Gestur.—Menn mega vita, að heimsókn Péturs var brot á reglum, varðhaldsfanga mátti ekki vitja án réttargæslumanns.

Haustið 1997 var ég dvalargestur í Davíðshúsi á Akureyri, í lítilli íbúð á jarðhæð, sem Akureyrarbær léði aðkomumönnum á sviði fræða og lista. Þá hringir síminn. Hjalti Haraldsson í Ytra-Garðshorni í Svarfaðardal segir Karlakór Dalvíkur ætla að flytja Úr útsæ rísa Íslands fjöll, og halda menn, að ljóðið sé eftir Davíð Stefánsson, en finna því ekki stað. Ekki gat ég svarað. Þá dettur mér í hug Svavar Aðalsteinsson frá Flögu í Hörgárdal. Hann var með okkur Gesti á Hólum og fór þá gjarna með ljóð upp úr sér og var nýlega kominn aftur í átthagana austan af Seyðisfirði og var í Skjaldarvík. Ég hringdi í hann. Hann svaraði, að þetta væri eftir Einar Benediktsson. Ég lét Hjalta strax vita, en fer síðan niður í Amtsbókasafn og leita í ljóðmælum Einars og finn ljóðið ekki. Þá kemur upp í hugann það, sem Gestur hafði sagt Pétri lækni, að hann kynni allan Davíð. Nú vill svo til, að þetta er upp úr kl. 6 á föstudagskvöldi, en ég vissi, að símatími fanga var milli 6 og 7 á föstudögum. Ég hringi því í Litla-Hraun og spyr eftir Gesti og ber upp spurninguna um Úr útsæ rísa Íslands fjöll. Hann svarar að bragði: Þetta er eftir Davíð, úr Háskólaljóðum 1961, annar kafli. Ljóð Davíðs voru í gestaíbúðinni. Ég fletti upp í þeim og fann staðinn. Upphafshending annars kafla var vitaskuld ekki í atriðaskrá. Til þess að svarfdælir lifðu ekki í villu, hringdi ég snarlega í Hjalta og lét hann vita, lét þess samt ekki getið, að þetta væri samkvæmt upplýsingum á Litla-Hrauni.

 


Bankar búa til bú

Kúabúið á Korpúlfsstöðum var stærsta kúabú á Norðurlöndum um 1930, byggt upp fyrir fé, sem útgerð Kveldúlfs hafði aflað. Búið stóð aldrei undir sér, sú var niðurstaða rannsóknar á vegum Háskóla Íslands. Síðar hafa ýmsir lagt fé í stórbúskap með misjöfnum árangri. Nýjasta dæmið er útgerðin Skinney-Þinganes á Höfn í Hornafirði, sem þar, á Mýrum, á stærsta kúabú landsins.

 

Þegar bankarnir bjuggu til ósköp af peningum fyrir um áratug, margfalt það, sem svaraði til innstæðna, buðu þeir kúabændum óspart lánsfé, til að þeir gætu aukið framleiðsluna með tæknilega fullkomnasta mjaltabúnaði. Ráðgjafi um kúabúskap í Danmörku, Snorri Sigurðsson, sem áður vann hjá Landssambandi kúabænda, gerir grein fyrir mjólkurframleiðslu í Danmörku í nýlegu Bændablaði. Hann vísar til athugana á því, hvaða búnaður við að koma mjólkinni úr júgra í mjólkurtank er dýrastur. Það er með mestri tækni. Í samræmi við það fréttist, að bændur erlendis losi sig við mjaltara og taki í þeirra stað í notkun mjaltagryfjur.

Mjaltagryfjur eru af ýmsu tagi. Bóndi, sem lengi hefur haft slíkt fyrirkomulag, segir, að því, sem hann spari í vexti og afborganir miðað við mjaltara, geti hann varið til að kosta mann til afleysinga og sett hann að auki til annarra verka milli mjalta. En hér á landi eru mjaltarar sú tækni, sem sækir á, með bankafé.

Ýmsir vilja leika sér að búskap í huganum. Frægt varð upp úr 1960, þegar Framkvæmdabanki ríkisins setti fé í andabú í Álfsnesi á Kjalarnesi. Slíkt var opinbert mál og mátti því ræða. Nú geta bankamenn með leynd sett fé í bú; það eru peningar, sem bankarnir búa til úr engu. Svínabú hafa risið fyrir slíkt fé. Þegar þau standa illa, hefur bankinn fært niður skuldir búsins, og það heldur áfram framleiðslu. Ég veit um bónda, sem lengi hefur búið við svín, að fyrirferð það, sem fjölskyldan hefur ráðið við, en hefur sætt verðlagi á afurðum, sem mótast af stórfelldri niðurfærslu skulda bankasvínabúskapar.

Ráðherra landbúnaðarmála vill hafa búvörusamning ríkis og bænda þannig, að samið verði um kjör allra búgreina í einu í stað samnings vegna hverrar greinar fyrir sig, eins og verið hefur. Með því móti gefst færi til að meta í heild og stuðla að því, sem menn vilja ætla landbúnaðinum.

Kúabúið á Korpúlfsstöðum var almennt vel metið, til að mynda gerði félagsskapur bænda, Búnaðarfélag Íslands, Thor Jensen, sem kom búinu upp, að heiðursfélaga. Þá þótti mikils um vert að rækta land og tryggja vaxandi mannfjölda í útgerðarstaðnum Reykjavík mjólk. Okkar tími hefur sín markmið, sem reyndar eru ekki á eina lund. Almennur búvörusamningur með markmið samtímans gæti orðið fánýtur, meðan bankarnir hafa tækifæri til að búa til peninga úr engu og setja þá í búrekstur með leyndum kjörum eftir höfði bankamanna óháð almennum markmiðum eða í andstöðu við þau.

Björn S. Stefánsson

(Birtist áður í Morgunblaðinu 14. maí 2015)


Höfundur

Lýðræðissetrið
Lýðræðissetrið

Í Lýðræðissetrinu eru rannsakaðar aðferðir við atkvæðagreiðslu og kosningu og veitt ráðgjöf í þeim efnum. Kynning á starfseminni fer fram á vefsíðunni www.abcd.is með útgáfu bóka og útgáfu skjárita.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband