Færsluflokkur: Evrópumál

Um samkeppni

Lítil saga getur vísað á merkilegt mál. Ég hitti um daginn kunningja minn, borgfirðing, og sagði honum frá heimsókn á bæ í Borgarfirði, þar sem er gert út á útreiðar útlendinga og þeim veittur allur viðurgerningur, og gengur vel. Kunninginn kunni að segja frá manni í næsta dal, sem ætti bágt með að reka áfram gistingu, sem var í smáum stíl. Það hefðu nefnilega verið settar reglur, sem heimiluðu ekki veitingar, þar sem matur úr eldhúsi væri borinn í gegnum setustofu í borðstofu; útreiðamaðurinn má reyndar leggja mönnum til nesti á ferðum. Það kynni að verða manninum of dýrt að breyta húsakynnum samkvæmt reglunum. Þetta gerir stærri gistihúsum ekki til. Með þessu móti er gripið inn í samkeppni, umbúðir um gistingu og veitingar eru ekki mál, sem menn ráða og ferðamenn fá að velja og hafna. Hér er um að ræða mikilvægar forsendur samkeppni, sem birtast á mörgum sviðum.

Það hét í upphafi, að Evrópusambandið skyldi koma á samkeppni um öll lönd þess, og íslendingar urðu þátttakendur í því með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Með margs konar regluverki er tekið fram fyrir hendur framleiðenda og neytenda með því, að framleiðendur eru skyldaðir til að hafa ákveðinn umbúnað um starfsemi sína, en hitt væri að láta samkeppnina vera um verð og gæði, eins og tíðkaðist, og ég vil ætla, að tíðkist mest í öðrum heimshlutum.

Ofangreint dæmi úr Borgarfirði er um regluverk, sem íþyngir sumum, en ekki öðrum; það raskar því samkeppnisskilyrðum. Ástæða er til að ætla, að hvers konar regluverk sé í þágu þeirra, sem eru stórir og eru í fjölmenni, en bitni á smárekstri og skilyrðum, sem Ísland býr mönnnum. Ég sakna þess, að Samkeppniseftirlitið láti sig slíka mismunun varða. Því er einmitt skylt, að vekja athygli ráðherra og almennings, ef álitið er, að ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla torveldi samkeppni í viðskiptum.

Utanríkisráðuneytið sagði frá því um daginn, að fyrir Alþingi lægju um 80 regluverk vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þau væru vissulega sum íþyngjandi, en „fyrirtækin“ vildu þola það, þau mætu það mest að fá að vera alveg eins og væri í Evrópusambandinu. Þau fyrirtæki og þeir hagsmunir, sem ég hef bent á, sem eru smáir eða hafa horfið vegna regluverks, hafa vitaskuld ekkert um málið að segja. Umræða um þetta er engin hér á landi af hendi þeirra, sem bera sérstaka ábyrgð og ættu að hafa afl til þess, ég nefni stjórnarráðið og háskóla, sem starfa að Evrópufræðum. Þá verður að ætlast til nokkurs af stjórnmálaflokkum, sem allir hljóta að vilja veg smærri fyrirtækja og valfrelsi neytenda.

Mér segir svo hugur, að hnignun efnahags Evrópusambandsins stafi ekki lítið af íþyngjandi regluverki, sem er samið í Brussel undir áhrifum sterkra hagsmunaafla með tugþúsundir málafylgjumanna á göngum Sambandshúsa. Svo gæti einnig verið um byggðir Íslands, sem eiga í vök að verjast, að framleiðsla, sem eru náttúruleg skilyrði fyrir hér, sé gerð dýr til að fullnægja skilyrðum, sem neytendur fá ekki tækifæri til að meta, hvort eru nokkurs virði.

Björn S. Stefánsson

(birtist áður í Morgunblaðinu 9. október 2014)


Höfundur

Lýðræðissetrið
Lýðræðissetrið

Í Lýðræðissetrinu eru rannsakaðar aðferðir við atkvæðagreiðslu og kosningu og veitt ráðgjöf í þeim efnum. Kynning á starfseminni fer fram á vefsíðunni www.abcd.is með útgáfu bóka og útgáfu skjárita.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband