Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2017

Hvernig kosning forseta verður því traustari sem fleiri eru í framboði

Þegar þetta er ritað í febrúar 2016 í aðdraganda forsetakjörs, er óvissa um frambjóðendur. Sumum líst ekki á, ef frambjóðendur verða segjum 10, að maður skuli geta náð kjöri með 11% atkvæða á bak við sig. Í þeirri stöðu gæti verið svo, að 89% kjósenda vildu hann með engu móti, en það kemur ekki fram af kjörseðlunum. Þó að slík ósköp verði ekki, er á það að líta, að aðeins einn forseti hefur hér verið kosinn í fyrsta sinn með meirihluta atkvæða, en það var Kristján Eldjárn 1968. Vigdís Finnbogadóttir var kosinn forseti með þriðjungi atkvæða 1980. Þegar Ólafur Ragnar Grímsson var kosinn forseti í fyrsta sinn, fékk hann rúm 40% atkvæða. Það segir ekki, að þeir, sem kusu hann, hafi verið traustir stuðningsmenn hans upp frá því. Fyrirkomulag forsetakjörs hér tryggir ekki, að forseti njóti trausts stuðnings hvorki í upphafi né þegar frá líður.

            Menn nefna það ráð til að fá forseta, sem nýtur sterks stuðnings, að kjósa í tveimur umferðum, þannig að í seinni umferð verði kosið um þá tvo, sem fengu í fyrri umferð flest atkvæði. Þannig hefur verið farið að við rektorskjör í Háskóla Íslands. Tölur úr rektorskjöri 1997 sýna, þegar fjórir bjóða sig fram, að önnur umferð getur verið milli þeirra, sem flestir vildu síst (sjá rit mitt Lýðræði með raðvali og sjóðvali, grein II.A.3). Þessi aðferð er höfð við kosningu forseta í Frakklandi. Kosning þar 2002 var í seinni umferð milli Jacques Chirac, sem fékk rúm 80% atkvæða, en tæp 20% í fyrri umferð. Jean-Marie Le Pen komst í aðra umferð með tæp 17% atkvæða; það var örlítið forskot á þriðja mann. Í seinni umferð fékk Le Pen tæplega 18% atkvæða. Það kom því í ljós, að þeir, sem kusu aðra en þá tvo í fyrri umferð—þeir voru 13, kusu svo til allir Chirac.  Þeir voru því ekki eiginlegir stuðningsmenn hans, heldur kusu hann til að forðast það, sem þeim þótti verra. Kosning í tveimur umferðum þarf því ekki að leiða í ljós almenna hylli kjósenda við þann, sem nær kjöri.

 

Forseti raðvalinn

Lítum á, hvort við raðval fari í slíkt óefni, sem hér er lýst. Til að einfalda málið setjum við, að kjósendur séu 100. Segjum, að í raðvali setji 11 kjósendur eitt 10 forsetaefna efst, en önnur séu sjaldnar efst. Í raðvali eiga menn ekki aðeins kost á að tjá, hvað þeir vilja helst, heldur líka, hvað þeir vilja síst og allt þar á milli. Setjum, að 89 vilji ofannefnt forsetaefni síst. Það er tjáð með því að setja það neðst í röðinni. Þetta kemur þannig út, að forsetaefni, sem er efst í röð 10 efna, fær 9 stig; það fær eitt stig fyrir hvert skipti, sem það er ofar en annað í röðinni. Forsetaefni, sem er fyrir neðan öll önnur í röðinni, fær þar ekkert stig. Forsetaefnið A, sem 11 setja efst, fær þá 9x11=99 stig. Hver seðill gefur 9+8+7+6+5+4+3+2+1=45 stig. Af 100 seðlum koma alls 4500 stig. Af þeim hefur A 99 stig. Hinir 9 fá þá samtals 4401 stig. Það er að meðaltali 489 stig, nánast fimmfalt það, sem sá, sem flestir settu efstan, fær. Sigurvegarinn í hefðbundnu kjöri fengi því hraklega útreið í raðvali.

            Uppgjör einstakrar raðar er af sama tagi og gerist á skákmóti, þar sem allir tefla við alla. Maður, sem vinnur á skákmóti, hefur skýrari yfirburði, eftir því sem fleiri tefla. Afstaða kjósenda til þess, sem er raðvalinn, verður á sama hátt því skýrari sem forsetaefni eru fleiri.

Birttist í 

Færðu menn snimma niður korn sín.

Rit til heiðurs Jónatan Hermannssyni sjötugum 27. nóvember 2016.


Þjóðablöndun í Noregi

Af tali manna að ráða er almennur skilningur á áhrifum innflytjenda á hag landsmanna. Innflytjendur þrengja helst að þeim, sem standa veikt, svo sem fyrri innflytjendum, en aðrir hafa ávinninginn af innflytjendunum. Vandinn er sá að ofbjóða ekki, svo að sú tilfinning vakni, með réttu eða röngu, að þrengt sé að ýmsum, sem hér hafa alið aldur sinn og hafa átt í vök að verjast. Þannig verða leiðindi, sem meðal annars birtast sem hatursorðræðu. Vitaskuld er hatursorðræða landsmanna um eigin landsmenn miklu rammari en hatursorðræða þeirra um útlendinga og hefur lengi verið.

             Innflytjendahópar hér hafa lengi lifað sínu eigin lífi og samlagast, eins og margir þekkja af eigin raun. Það er mikið spurning um, hvernig fer, hvort straumurinn er stríður til landsins. Ég hef löng kynni af Noregi, þar sem ég var ungur árum saman og kem enn iðulega þangað, helst vegna starfs. Í Osló blasir við nærri járnbrautarstöðinni líf, sem á rætur í fjarlægum löndum. Fyrir nokkrum árum var sagt frá því í blöðum, að þar, í hverfinu Grönland, hefði síðasta norska fjölskyldan með barn í skóla flust burt. Stundum leysist alþýðlegt samfélag upp, þegar efnamenn kaupa þar eignir og setjast að. Í Grönland sótti fátækt fólk, eins og innflytjendur voru yfirleitt, inn í gróið hverfi alþýðufólks, og aðlagaðist ekki, heldur varð smám saman einrátt.

            Nýleg athugun sýndi, að innflytjendur í Osló skera sig ekki úr á mestu þjóðræknishátíð í Noregi, þjóðhátíðardeginum 17. maí. Þar er þjóðfáninn með merki kristninnar, krossinum, mest áberandi. Þetta þótti benda til aðlögunar. Annað kom fram í athugun, sem nýlega var gerð í Grorud í Osló. Þar er mikil nýbyggð, sem hófst upp úr miðri síðustu öld, og var allt af myndarskap gert, eins og blasti við á ferð um hverfið. Ég ber Grorud saman við Grafarvogshverfið í Reykjavík, þar sem ekki aðeins er myndarbragur, heldur má líka skynja þar gott mannlíf með öflugu félags- og menningarstarfi. Það er ekki sjálfgert, að vel takist við slíka nýbyggð á tímum, þegar hversdaglegt líf er sundrað.

            Grorud-hverfið var athugað með tilliti til innflytjenda. Spurningin vill vera, hvernig samlögunin tekst. Samlögunin reyndist ekki aðeins hafa mistekist, heldur höfðu norðmenn á Grorud hætt að taka þátt í því samfélagi, sem þeir höfðu mótað, og dregið sig hver inn í sína skel, sína íbúð.

            Maðurinn, sem rannsakaði, valdi fólk til viðtals. Hann sniðgekk þá, sem voru í stöðu til að vinna að málum íbúanna og höfðu þess vegna opinbera afstöðu. Ég minnist sögu úr skýrslu hans. Norsk kona sagði, að svo væri komið, ef hún gengi eftir götu þar í hverfinu, vitaskuld klædd alla vega, eins og gerist meðal norskra kvenna, þá horfðu ‘þeir’ á hana grimmdaraugum. Söguna hafði hann til að lýsa sundrung almennt meðal íbúanna. Samtölin fóru fram með nafnleynd, aðeins þannig fékkst fólk til að tjá sig, sagði rannsakandinn.

Björn S. Stefánsson

Birtist áður í Morgunblaðinu 27. desember 2016

 


Höfundur

Lýðræðissetrið
Lýðræðissetrið

Í Lýðræðissetrinu eru rannsakaðar aðferðir við atkvæðagreiðslu og kosningu og veitt ráðgjöf í þeim efnum. Kynning á starfseminni fer fram á vefsíðunni www.abcd.is með útgáfu bóka og útgáfu skjárita.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband