Gestur Eggertsson (eftirmæli)

Gestur Eggertsson f. á Akureyri 30. maí 1939. Foreldrar Katrín Eiríksdóttir frá Sjónarhól í Hafnarfirði og Eggert Kristjánsson f. í Ytra-Krossanesi við Eyjafjörð. Fyrrverandi eiginkona Guðrún H. Arndal fædd 15. janúar 1943 (skilnaður 1990/1991). Gestur og Guðrún bjuggu í Hafnarfirði og eignuðust:  1) Eggert f. 16. apríl 1964, sonur Heimir Gestur, 2) Guðlaugu f. 14. ágúst 1967, börn Emil Arnar, Jón Aron og Guðrún Marín og 3) Katrínu f. 26. apríl 1973, maki Helgi Þór Helgason, börn Eva Marín og Elmar Darri. Gestur lærði búfræði og húsasmíði. Bjó á Steinsstöðum í Öxnadal frá 1993. Hann lést 6. apríl 2015 og var jarðaður á Bakka 29. apríl.

 

Eftirmæli

Maður kemur inn í fjósið á Steinsstöðum, leiðir stúlkubarn og fer með upp úr sér nokkur ljóð eftir Jónas Hallgrímsson, réttir fram höndina og segir: Hrafn Gunnlaugsson. Bóndi réttir fram hönd og segir: Gestur Eggertsson. Komumaður: Það var hér sem Jónas Hallgrímsson ólst upp, en ekki á Hrauni. Ég veit það, segir Gestur. Hrafn: Það þarf að gera pening úr því. Gestur: Ég á nógan pening. Svo fara þeir út á hlað, þar sem sér til Hraundranga, og aftur þylur Hrafn Jónas. Gestur við Hrafn: Ég sit stundum á kvöldin í stofunni og horfi þangað. Ég þarf ekki aðra með mér við það. Ég get gert það einn.—Gestur bætti við, þegar hann sagði mér frá þessu: Þó það komi ekki nema einn bílfarmur af ferðamönnum á sumri, er þetta ekki lengur sveitabær. Enda þótt Gestur hafi líklega kunnað eyfirsku höfuðskáldin utanað, fléttaði hann ljóð ekki í tal sitt, en gat leikið sér að orðum í spjalli eins og í skáldskap.

Gestur var barnfæddur við Eyjafjörð. Faðir hans var skipstjóri fyrir norðan. Síðar fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur. Hann lærði búfræði á Hólum og svo húsasmíði og stundaði það, átti þá heima í Hafnarfirði. Hann vildi búa í sveit, en konan ekki. Eftir skilnað 1990/91 leitaði hann fyrir sér um jarðnæði í átthögunum nyrðra og keypti Steinsstaði í Öxnadal. Móðir hans fýsti hann að láta verða af því, eins og hugur hans hafði lengi staðið til, studdi hann við kaupin, fluttist með honum norður og var hjá honum. Katrín Gestsdóttir vandist hestum í Hafnarfirði með föður sínum, þau tömdu hesta á Steinsstöðum, og hún giftist Helga á Bakka. Gestur mat Helga manna mest.

Tveimur mánuðum eftir lát Katrínar Eiríksdóttur 1996 kom Sigríður systir Gests, búsett í Reykjavík, norður vegna dánarbúsins. Nú er aðeins einn til frásagnar. Þegar Sigríður var búin til brottfarar við bíl sinn, leiddi ágreiningur með þeim systkinum um muni dánarbúsins til handalögmála. Þar dó hún. Gestur var dæmdur í átta ára fangavist. Krufningsskýrsla gat bent til þess, að hún hefði dáið af geðshræringu.

Gestur fór á Litla-Hraun haustið 1997 og hafði bústjóra á Steinsstöðum. Á Litla-Hrauni endurgerði hann elstu bygginguna. Þá vantaði verkefni. Honum líkaði það ekki, þótti lítið tak í samföngum og vildi fara á Kvíabryggju. Að vísu á maður með þungan dóm ekki að vera þar. Gestur heyrði hjúkrunarkonuna lýsa í símtali við fangamálastofnun, hvað hann hefði mikla þörf fyrir vistaskipti og segja að lokum: Svo hefur hann húmor. Fljótlega kom símbréf um að flytja hann á Kvíabryggju. Í erfisdrykkju Gests var mér bent á fangavörð á Litla-Hrauni. Mér kom í hug, að eiginlega hefðu þeir verið vinnufélagar. Á Kvíabryggju var Gestur fljótt kominn í smíðar. Dómsúttekt lauk á fimm árum og fjórum mánuðum og endaði við störf í Reykjavík hálft ár. Gestur hætti kúabúskap fyrir nokkrum árum, en hirti á Steinsstöðum geldneyti frá Bakka.

Á skírdagsmorgun hringdi ég í Gest til að láta hann vita af erindi í Útvarpinu um Þóru Gunnarsdóttur og Sigrún Ingólfsdóttir, skólastjórafrú á Hólum, flutti. Vel lá á Gesti. „Hér er 17. júní-veður,“ sagði hann. Ég lofaði heilsuhælið í Hveragerði eftir dvöl þar. Hann langaði að fara þangað, en kvað ekkert vera að sér. Annan páskadag var hann allur.

Björn S. Stefánsson

(Birtist áður í Morgunblaðinu 30. maí 2015)

 

Útförin

Útfarardagurinn 29. apríl var fagur. Kirkjan á Bakka er snotur, frá 1843, og varð því sóknarkirkja Rannveigar á Steinsstöðum. Jónas sonur hennar fór síðast frá Íslandi 1842. Kirkjan er hæfilega stór fyrir útför, eins og best gerist; þær systur sorg og gleði, vegna vinarhugar, ásamt gestunum fylltu guðshúsið.

Hér kemur að því, sem við Gestur ræddum aldrei. Gestur var nefnilega í skáldskapnum, ekki í skáldunum, benti mér reyndar einu sinni út um eldhúsgluggann á foss ofan við húsið: þarna er Gljúfrabúi. Eftir jarðsetninguna skyggndist ég um eftir leiðum vitorðsmanna haustið 1946, þegar hluta af jarðneskum leifum Jónasar Hallgrímssonar var komið fyrir á laun í grafreitnum. Ég rifjaði síðar upp fyrir mér ritaða frásögn sonar prestsins, sem við þetta var riðinn, af þeim feginleik, sem aldrei brást, þegar vitorðsmennirnir hittust, en ekki mátti afhjúpa, eins og hann, sr. Ágúst Sigurðsson, segir í Degi-Tímanum 1997, og sé þá enn ívið snemmt að lýsa. Nú fyrst skil ég leynd sr. Ágústs. Faðir hans, embættismaður, varð brotlegur gegn stjórnvaldi, ásamt nokkrum dalbúum. Greinaflokki í blaðinu fylgja myndir af þeim. Syninum þótti því ívið snemmt að lýsa frekar, en ekki mátti dragast að setja milli lína, þar sem þegar árið 1996, ef til vill fyrr, var farið að halla undan fyrir honum. Með þessum brögðum dalbúa og prests var haldið eftir á Bakka því, sem norðlensk skáld, náttúrufræðingar og allur almenningur nyrðra höfðu óskað opinberlega eftir.

 

Saga af réttarfari og alþýðumenningu

Eftir atburðinn á Steinsstöðum 27. apríl 1996 var Gestur í varðhaldi á Akureyri, í einangrun, fékk hvorki að hlusta á útvarp né sjá blöð, en bækur voru þar til aflestrar. Honum fannst bókavalið ekki merkilegt. Þá gerist það, að inn til hans kemur Pétur Pétursson, settur héraðslæknir. Gestur hugsaði: Það er geðrannsóknin. Pétur víkur talinu að vísnagerð Gests, sem svarar, að hann geri aldrei vísu. Þá veit Pétur betur. Þannig var, að Gestur sendi daglega bréf úr varðhaldinu til unga fólksins á Steinsstöðum til að leiðbeina við bústörfin. Þar hafði flotið með vísa, en bréfin ljósrituð og Pétur séð þau. Pétur spyr Gest um ljóðalestur og skáld hans. Gestur kvaðst hafa varast að nefna Jónas, þar sem hann bjó á Steinsstöðum og var í geðrannsókn, og nefnir Davíð. Kanntu eitthvað eftir hann, spyr Pétur. Ég hugsa, að ég kunni hann allan, svaraði Gestur.—Menn mega vita, að heimsókn Péturs var brot á reglum, varðhaldsfanga mátti ekki vitja án réttargæslumanns.

Haustið 1997 var ég dvalargestur í Davíðshúsi á Akureyri, í lítilli íbúð á jarðhæð, sem Akureyrarbær léði aðkomumönnum á sviði fræða og lista. Þá hringir síminn. Hjalti Haraldsson í Ytra-Garðshorni í Svarfaðardal segir Karlakór Dalvíkur ætla að flytja Úr útsæ rísa Íslands fjöll, og halda menn, að ljóðið sé eftir Davíð Stefánsson, en finna því ekki stað. Ekki gat ég svarað. Þá dettur mér í hug Svavar Aðalsteinsson frá Flögu í Hörgárdal. Hann var með okkur Gesti á Hólum og fór þá gjarna með ljóð upp úr sér og var nýlega kominn aftur í átthagana austan af Seyðisfirði og var í Skjaldarvík. Ég hringdi í hann. Hann svaraði, að þetta væri eftir Einar Benediktsson. Ég lét Hjalta strax vita, en fer síðan niður í Amtsbókasafn og leita í ljóðmælum Einars og finn ljóðið ekki. Þá kemur upp í hugann það, sem Gestur hafði sagt Pétri lækni, að hann kynni allan Davíð. Nú vill svo til, að þetta er upp úr kl. 6 á föstudagskvöldi, en ég vissi, að símatími fanga var milli 6 og 7 á föstudögum. Ég hringi því í Litla-Hraun og spyr eftir Gesti og ber upp spurninguna um Úr útsæ rísa Íslands fjöll. Hann svarar að bragði: Þetta er eftir Davíð, úr Háskólaljóðum 1961, annar kafli. Ljóð Davíðs voru í gestaíbúðinni. Ég fletti upp í þeim og fann staðinn. Upphafshending annars kafla var vitaskuld ekki í atriðaskrá. Til þess að svarfdælir lifðu ekki í villu, hringdi ég snarlega í Hjalta og lét hann vita, lét þess samt ekki getið, að þetta væri samkvæmt upplýsingum á Litla-Hrauni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Lýðræðissetrið
Lýðræðissetrið

Í Lýðræðissetrinu eru rannsakaðar aðferðir við atkvæðagreiðslu og kosningu og veitt ráðgjöf í þeim efnum. Kynning á starfseminni fer fram á vefsíðunni www.abcd.is með útgáfu bóka og útgáfu skjárita.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband