Fiskveiðistjórn með hagfræðiráðum

Athugum hlut hagfræðinnar í fiskveiðistjórn við Ísland eftir að fiskimiðin við landið komust að mestu á forræði ríkisins fyrir fjórum áratugum. Ég benti á það í grein um hugmyndir að baki fiskveiðistjórn í Morgunblaðinu 30. júlí, að helstu efnahagsráðgjafar landsins áttu með sér vandaðar hugmyndir um það, hvernig þar skyldi taka á. Vísað var til hagfræðilegs ráðs til að sjá til þess, að nýting almennings, eins og fiskimiðin eru, verði í hófi. Því ráði var svo aldrei beitt hér.

Næsta merkilega hagfræðilega ábendingin í þessum málum er í eftirfarandi orðum Rögnvalds Hannessonar frá árinu 1994, en hann var þá og til skamms tíma prófessor í fiskihagfræði við Verslunarháskóla Noregs: „Veiðum úr fiskistofnum, sem halda sig á afmörkuðu svæði, þar sem ekki eru of miklar umhverfissveiflur, er hægt að stjórna út frá langtímasjónarmiðum. Allur varanlegur afli byggist á því að grisja fiskistofna hæfilega, m.a. út frá fæðuframboði og afráni eldri fiska á ungviði. Þessi lýsing held ég eigi sæmilega við þorskinn á Íslandsmiðum.“

Ábending Rögnvalds er úr grein í Morgunblaðinu (6. júní). Um páskaleytið árið eftir var Rögnvaldur á málstofu í hagfræði- og viðskiptadeild Háskóla Íslands. Þar reifaði hann, hvernig mætti stjórna fiskveiðum í hafi, sem mörg ríki sækja til veiða í, og hafði hann Barentshaf sem dæmi. Það gerði hann stærðfræðilega og fimlega. Eins og vill verða með stærðfræðilega fimleika í hagfræði, kom ekkert raunhæft út úr. Getur verið því um að kenna, að óhjákvæmilegar forsendur eru margar. Á þessari málstofu voru m.a. nokkrir aðkomumenn auk hagfræðinga, sem höfðu sinnt fiskveiðistjórn fræðilega, í deildinni og á Þjóðhagsstofnun. Að lokinni framsögu hófust umræður um forsendur fiskveiðistjórnar. Í þeim tóku þátt aðkomumennirnir auk Rögnvalds og töluðu mannamál. Staðfestist þar vissulega framangreint álit Rögnvalds. Hagfræðingar deildarinnar og Þjóðhagsstofnunar sátu hjá.

Sá, sem vill kynna sér kjarna hagkvæmrar fiskveiðistjórnar, skyldi lesa grein Rögnvalds frá 1994. Hún var svar við opnu bréfi frá mér. Engin ákvörðun um fiskveiðistjórn hér við land hefur verið studd rökum, eins og hann setti þar fram.

Björn S. Stefánsson

(Birtist áður í Morgunblaðinu 22. ágúst 2015)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Lýðræðissetrið
Lýðræðissetrið

Í Lýðræðissetrinu eru rannsakaðar aðferðir við atkvæðagreiðslu og kosningu og veitt ráðgjöf í þeim efnum. Kynning á starfseminni fer fram á vefsíðunni www.abcd.is með útgáfu bóka og útgáfu skjárita.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband